Stéttaorðræða í íslenskum fjölmiðlum

Félagsvísindatorg

Öll velkomin á síðasta Félagsvísindatorg haustmisseris í stofu M101 og í streymi

Guðmundur Oddsson, prófessor við Félagsvísindadeild mun flytja erindið:

Stéttaorðræða í íslenskum fjölmiðlum

Íslensku þjóðfélagi var löngum lýst sem stéttlausu í almennri umræðu og á vettvangi stjórnmálanna. Þessi orðræða endurspeglar og mótar sjálfsögð sannindi um tiltölulegt stéttleysi Íslands. Nýlegar rannsóknir og spurningakannanir benda hins vegar til þess að grafið hafi undan hugmyndum um stéttleysi síðustu áratugi og að landsmenn séu meðvitaðri um stéttaskiptingu íslensks samfélags en áður. Í erindinu er markmiðið að varpa ljósi á breyttar hugmyndir Íslendinga um stéttaskiptingu á grundvelli eigindlegrar og megindlegrar innihaldsgreiningar á stéttaorðræðu í íslenskum fjölmiðlum frá árinu 2005 til 2020. Gögnin koma úr fréttasafni Fjölmiðlavaktar Creditinfo og samanstanda af fréttum úr dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi frá 2005 og úr stærstum netmiðlum landsins frá 2010. Við túlkun niðurstaðna er stuðst við stéttakenningu Pierre Bourdieu og kenningu félagsfræðingsins Wayne Brekhus um félagslega merkingu (e. social markedness) sem vísar til þess hvernig fólk leggur áherslu á aðra hlið andstæðna en hunsar hina sem þekkingarfræðilega ómerkilega. Niðurstöðurnar benda til þess að stéttavitund landsmanna hafi aukist frá því sem áður var. Hins vegar eru Íslendingar eftir sem áður gjarnir að merkja (e. mark) aðrar samfélagsgerðir sem stéttskiptar en líta framhjá stéttaskiptingu eigin samtímaþjóðfélags sem ómarkverðri (e. unremarkable). Þetta ferli ómerkir (e. unmarks) stéttaskiptingu á Íslandi og viðheldur þar með hugmyndum um stéttleysi Íslands. Niðurstöðurnar sýna að stéttavitund er að hluta félagsleg sköpun sem byggir á samanburði.

Guðmundur er prófessor í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Hann útskrifaðist með doktorspróf í félagsfræði árið 2014 frá Missouri-háskóla. Frá 2014 til 2017 var Guðmundur lektor við félags- og mannfræðideild Norður-Michigan-háskóla. 

Öll velkomin!