Sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí 2018

Er botninum náð í kjörsókn eða er nýtt met í aðsigi?

Miðvikudaginn 25. apríl kl. 12.00-12.50 fjallar Dr. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við HA um spurninguna „Sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí 2018. Er botninum náð í kjörsókn eða er nýtt met í aðsigi?“ og á samtal við áheyrendur um efnið.

Í erindi sínu mun Grétar rýna í úrslit og tilhneigingu undanfarinna sveitar-stjórnarkosninga. Kosningarnar 2010 voru sögulegustu sveitarstjórnarkosningarnar frá upphafi með sigri Besta flokksins í Reykjavík og einnig á Akureyri þar sem Listi fólksins vann hreinan meirihluta. Þá náði reyndar kjörsókn sögulegu lágmarki sem var slegið hressilega í kosningunum 2014 þegar kjörsókn var aðeins 66,5% á landsvísu. Í aðdraganda kosninga í vor blasir við deyfð og áhugaleysi meðal almennings og fjölmiðla. Er þjóðin þjökuð af kosningaþreytu vegna tíðra Alþingiskosninga undanfarin ár? Eða er fólki að mestu sama um málefni sveitarstjórna? Megum við eiga von á enn einum botni í kjörsókn? Grétar mun ræða þessi mál vítt og breitt.

Grétar er prófessor í stjórnmálafræði og aðferðafræði við Háskólann á Akureyri. Hann er stjórnmálafræðingur frá HÍ og með bæði licentiat og doktorsgráðu í stjórnmála- og stjórnsýslufræði frá Háskólanum í Gautaborg í Svíþjóð. Grétar hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri RHA, framkvæmdastjóri Byggðarannsóknastofnunar, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst og prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Hann hefur um áratuga skeið stundað rannsóknir á sveitarstjórnarstiginu. Greinar og önnur útgáfa spannar sameiningar sveitarfélaga, samstarf sveitarfélaga, fjármál sveitarfélaga, sveitarstjórnarkosningar og fleiri þætti sem tengjast lýðræði á sveitarstjórnarstiginu.

Félagsvísindatorgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.

Umsjón: Dr. Hermann Óskarsson prófessor, Háskólinn á Akureyri, hug- og félagsvísindasvið, Sólborg v/Norðurslóð, IS-Akureyri, hermann@unak.is, GSM 862-0475.