Úrgangsstjórnun á Íslandi: Sett markmið og aukinn kostnaður

Opin málstofa í Viðskiptadeild

Í þessu erindi mun Guðmundur Óskar Kristjánsson, dósent við Viðskiptadeild fjalla um nýútkomna grein sem ber heitið "Waste management in Iceland: Challenges and costs related to achieving the EU municipal solid waste targets" og birtist í tímaritinu Waste Management í lok september. Þar er staða Íslands skoðuð í samanburði við norðurlönd og sett markmið Evrópusambandsins í úrgangsmálum. Farið verður yfir kostnað íslenskra sveitarfélaga vegna sorphreinsunar og sorpeyðingar á íbúa útfrá ársreikningum þeirra frá 2002-2020. Að auki verður farið yfir sumar af þeim breytingum á lögum sem samþykktar voru á alþingi í júní 2021 og taka að miklu leyti gildi núna þann 1. janúar 2023. Miðað við hve Ísland á enn langt í land til að ná settum markmiðum og umfang breytingana er ljóst að kostnaðurinn við breytingarnar verður verulegur og munu soprhirðugjöld íbúa bara hækka í kjölfar þessara breytinga, þó verður ekki lagt beint mat á það í þessu erindi.

Málstofan fer fram í stofu M101 og í streymi

Guðmundur Kristján Óskarsson er dósent við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Hann er með cand.scient.oecon gráðu í stærðfræði/hagfræði frá Háskólanum í Árósum frá árinu 2000. Hann var ráðinn í lektorsstöðu við Rekstrardeild Háskólans á Akureyri (nú Viðskiptadeild) um mitt ár 2001. Hefur síðan þá verið fyrst og fremst verið að kenna stærðfræði og tölfræði ásamt því að stunda rannsóknir. Rannsóknir hans eru nokkuð fjölbreyttar en sameiginlegt í þeim flestum er að hann hefur séð um gögn, gagnavinnslu, tölfræðilega úrvinnslu og framsetningu gagna og niðurstaðna. Rannsóknirnar hafa verið tengdar fjarkennslu, stjórnun og rekstri fyrirtækja, hávaða og hljóðvist leikskóla, líknandi meðferð, langvinna verki og meðgöngu vandamál svo eitthvað sé nefnt og nú seinast er hann farinn að skoða úrgangsstjórnun á Íslandi. Hann er nú í doktorsnámi í Háskóla Íslands og tengist þetta erindi því námi.

Öll velkomin!