401. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 17.01.2019 kl. 13.30. Borgir, R262

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:33.

Mættir voru auk hans:

Björn Ingimarsson fulltrúi menntamálaráðherra
Erla Björg Guðmundsdóttir varafulltrúi háskólaráðs
Finnbogi Jónsson fulltrúi háskólaráðs (via Zoom)
Óskar Þór Vilhjálmsson varafulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi nemenda

Forföll:

Brynhildur Pétursdóttir fulltrúi háskólaráðs
Hermína Gunnþórsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen ritari og starfsmaður háskólaráðs

Gestir:

Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármálasviðs
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður fjármálasviðs og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu sátu þennan lið fundarins. 

Forstöðumaður fjármálasviðs kynnti rekstraryfirlit janúar til nóvember 2018. Ársuppgjör 2018 verður ekki tilbúið fyrr en í febrúar. Reksturinn er í jafnvægi þó ekki megi mikið út af bregða. Reiknað með örlitlum rekstrarafgangi 2018.

Forstöðumaður kynnti fjárhagsáætlun 2019, sem hefur verið samþykkt. Framlag ríkisins til Háskólans á Akureyri eykst um 6% á milli áranna 2018 og 2019. Fjárhagsáætlun miðar við svipaðar forsendur og fyrri ár og gert er ráð fyrir að rekstrinum verði haldið innan áætlunar. Hins vegar er fjöldi nemenda þarna mikill óvissuþáttur eins og áður hefur verið rætt og því mikilvægt að taka alvarlega umræðuna um að nemendafjöldi Háskólans á Akureyri sé kominn að þolmörkum miðað við núverandi starfsemi og fjárframlög og því þarf að gera ráðstafanir og skilgreina vel reglur um aðgangsviðmið eða fjöldatakmarkanir við einstakar námsleiðir og samkeppnispróf þar sem það á við.

2. Úthlutun rannsóknamissera 2019-2020

Fyrir liggur tillaga rannsóknamisseranefndar um úthlutun rannsóknamissera 2019-2020. Átta starfsmenn sækja um tíu misseri. Fram kemur að undanfarin ár hefur heimilaður ferða- og dvalarkostnaður í rannsóknamisseri verið kr. 500.000 pr. misseri eða kr. 1.000.000 fyrir tvö misseri en samkvæmt Reglum HA nr. 355/2012 um rannsóknamisseri er heimilt að úthluta allt að 1.500.000 fyrir tvö samfelld misseri. Rannsóknamisseranefnd leggur til að heimilaður ferða- og dvalarkostnaður verði hækkaður og úthlutað verði í samræmi við heimild í reglum HA um rannsóknamisseri. Framkvæmdastjórn HA hefur samþykkt að leggja til við háskólaráð að tillaga rannsóknamisseranefndar um ferða- og dvalarkostnað verði samþykkt og úthlutað verði í samræmi við reglurnar, þ.e. kr. 1.500.000 fyrir tvö samfelld rannsóknamisseri.

Háskólaráð samþykkir tillögur rannsóknamisseranefndar um úthlutun rannsóknamissera skólaárið 2019-2020. Háskólaráð samþykkir einnig að heimild til ferða- og dvalarkostnaðar í rannsóknamisseri verði í samræmi við heimild í reglum nr. 355/2012, eða allt að kr. 1.500.000 fyrir tvö samfelld rannsóknamisseri og allt að kr. 750.000 fyrir eitt rannsóknamisseri.

3. Innritunartölur

Framkvæmdastjóri og forstöðumaður fjármálasviðs sátu þennan lið dagskrárinnar. 

Fjölgun nemenda undanfarin ár hefur reynt mjög á starfsfólk háskólans og ljóst að komið er að þolmörkum í fjölda nemenda. Í samtölum við stjórnvöld hefur komið skýrt fram að ekki muni verða um raunfjölgun nemendaígilda að ræða við fjárveitingar og því er líklegt núverandi rammi sé það sem mun verða til viðmiðunar næstu árin. Gert er ráð fyrir sambærilegum fjölda umsókna nk. vor og árið 2018. Það þarf því að grípa til aðgerða til að halda nemendafjölda í skefjum og standa vörð um hagsmuni nemenda og gæði náms.

Háskólafundur Háskólans á Akureyri ályktaði eftirfarandi þann 15. Janúar sl:

„Háskólafundur Háskólans á Akureyri, haldinn 15. janúar 2019, beinir því til háskólaráðs að takmarka fjölda nýnema á skólaárinu 2019-20 við þúsund nemendur.“

Háskólaráð felur rektor að vinna tillögur að innritun nemenda eftir deildum og sviðum haustið 2019 í samráði við fræðasviðin og menntamálaráðuneytið og með tilliti til þarfa samfélagsins. Miðað skuli við að stefnt sé að því að ekki verði innritaðir fleiri en 1000 nýir nemendur á haustmisseri 2019.

4. Málefni hug- og félagsvísindasviðs – nýtt skipulag til samþykktar

Tillögur breytingateymis á hug- og félagsvísindasviðs sem kynntar voru á fundi háskólaráðs í desember liggja fyrir til samþykktar. Tillögurnar gera ráð fyrir að hug- og félagsvísindasviði verði skipt upp í fjórar deildir: félagsvísindadeild, kennaradeild, lagadeild og sálfræðideild.

Háskólaráð samþykkir tillöguna að breyttu skipulagi og heimilar að hafist sé handa við innleiðingu á breyttu skipulagi. Óskað er eftir innleiðingaráætlun frá breytingarteyminu þar sem fram kemur áætlun um alla þætti sem þarf að taka tillit til, t.d. breyting á reglum um skipulag hug- og félagsvísindasviðs, upplýsingakerfi, vefsíða, kynningarefni, skipan deildafunda og kosning deildarformanna. Gert er ráð fyrir að breytt skipulag verði að fullu komið til framkvæmdar frá og með skólaárinu 2019-2020. Jafnframt samþykkt að hafin verði vinna við að sækja um viðurkenningu menntamálaráðherra á fræðasviði hugvísinda.

Háskólaráð óskar eftir sambærilegri greiningu á heilbrigðisvísindasviði og viðskipta- og raunvísindasviði eins og gerð hefur verið á hug- og félagsvísindasviði að því er varðar fjölda nemenda, starfsfólks og kennslueiningar á hverri námsbraut með tilliti til útdeilingu og forgangsröðun fjármagns. Í þessu samhengi skiptir líka máli hversu mikil samkennsla er á milli námsbrauta og deilda í einstökum námskeiðum.

Jafnframt er lögð fram til kynningar skýrsla starfshóps um miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Rektor vísaði skýrslunni til frekari umræðu á hug- og félagsvísindasviði og því liggja ekki fyrir tillögur til samþykktar í háskólaráði.

5. Önnur mál

  • Staða máls að því er varðar tæknifræði við Háskólann á Akureyri.

Ekki er líklegt að stjórnvöld muni leggja til aukafjármagn á næstu árum svo Háskólinn á Akureyri geti tekið upp nám í tæknifræði. Hins vegar er ljóst að ákall samfélagsins um slíkt nám er mjög sterkt. Í því samhengi vill háskólaráð leggja áherslu á að Háskólinn á Akureyri er tilbúinn til að stækka að því gefnu að því fylgi það fjármagn sem til þarf. Það er því vilji til að skoða ýmsar leiðir til þess að taka upp nám í tæknifræði við HA, í samstarfi við atvinnulíf og stjórnvöld. Rektor heldur áfram að vinna að þessu verkefni.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:24.