402. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 21.02.2019 kl. 13.30. Borgir, R262


Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mættir voru auk hans:

Björn Ingimarsson fulltrúi menntamálaráðherra
Erla Björg Guðmundsdóttir varafulltrúi háskólaráðs
Finnbogi Jónsson fulltrúi háskólaráðs (via Zoom)
Hermína Gunnþórsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Óskar Þór Vilhjálmsson varafulltrúi háskólasamfélagsins
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi stúdenta

Forföll boðuðu:

Brynhildur Pétursdóttir fulltrúi háskólaráðs
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen ritari og starfsmaður háskólaráðs

Gestir:

Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu

Rektor kynnti dagskrá og kynnti breytingu á röð fundarliða þar sem liður nr. 2 er færður aftast og tekinn fyrir síðast. Breyting samþykkt.

1. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður fjármála fór yfir drög að rekstrarniðurstöðu ársins 2018. Rekstrarniðurstaða er innan marka og réttu megin við núllið. Ástæðan fyrir jákvæðri niðurstöðu eru þó sértekjur háskólans og því ljóst að reksturinn er áfram í járnum og ekki má mikið út af bregða til að rekstur háskólans verði áfram innan marka næstu árin.
Harpa yfirgaf fundinn.

2. Úthlutun úr rannsóknasjóði HA

Rektor kynnti samantekt frá stjórn vísindasjóðs vegna úthlutunar úr rannsóknasjóði HA 2019. Lagt fram til kynningar.

3. Bókfærð mál til samþykktar

  • Kennslualmanak 2019-2020. Samþykkt.
  • Nám- og kennsluskrá 2019-2020. Liggur ekki fyrir í lokaútgáfu en verður birt á næstu dögum. Engar stórar breytingar á fyrri námskrá en verður lagt fram til samþykktar í mars. Ekki ásættanlegt að kennsluskrá liggi ekki fyrir til samþykktar í háskólaráði samkvæmt reglum skólans og því mikilvægt að samþykktu verklagi sé fylgt til hins ýtrasta.
  • Breyting á reglum um rannsóknasjóð HA. Bætt inn í reglurnar ákvæði um að úthlutaður styrkur sem ekki hefur verið nýttur tveimur árum eftir úthlutun fellur niður. Samþykkt.
  • Reglur um innritun nýrra stúdenta á 3. eða 4. námsári í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Samþykkt.

4. Önnur mál

  • Hermína spurðist fyrir um stöðu á verklagi við fyrirkomulag á stjórnunar- og aðstöðugjaldi (e. overhead) af rannsóknarstyrkjum starfsmanna háskólans. Rektor mun skoða stöðu málsins.
  • Innleiðing á nýju kennslukerfi við HA (Canvas) – til kynningar.

5. Nemendafjöldi – aðgangstakmarkanir – aðgangsviðmið

Rektor og framkvæmdastjóri kynntu drög að áætlun um aðgerðir til að fækka kennslueiningum innan Háskólans á Akureyri. Kennslueiningum hefur fjölgað gríðarlega síðastliðin 3 ár vegna mikillar fjölgunar nemenda. Nú er svo komið að nemendaígildi (ársnemar) háskólans eru komin töluvert umfram þau nemendaígildi sem háskólinn fær greitt fyrir af fjárlögum. Ef fjöldi umsókna í háskólann verður sambærilegur og árið 2018 er ljóst að háskólinn mun ekki geta staðið undir þeirri nemendafjölgun, hvorki fjárhagslega, miðað við núverandi fjármálaáætlun stjórnvalda, né er hægt að auka álag meira á starfsfólk háskólans, miðað við núverandi starfsmannafjölda.

Tillögur um aðgerðir felast m.a. í að skilgreina vel forsendur nýnemaskráningar út frá lögum, reglum og aðgangsviðmiðum. Jafnframt verði fylgt eftir skilyrðum um fyrstu einkunn (að lágmarki 7,25) sem forkröfu til inngöngu í framhaldsnám.

Tillögur að aðgerðum verða unnar áfram með stjórnendum og starfsfólki háskólans með það að markmiði að útbúa aðgerðarlista svo háskólinn sé undirbúinn ef fjöldi umsókna fer fram yfir það sem skólinn getur tekið við.

Háskólaráð leggur áherslu á að inntaka nýnema tekur mið af fjárheimildum hvers árs og áskilur háskólaráð sér rétt til að takmarka sérstaklega aðgengi að námi til að tryggja að Háskólinn á Akureyri sé innan fjárheimilda.

Háskólaráð samþykkir að rektor og framkvæmdastjóri haldi áfram að vinna að tillögum um aðgerðir í samræmi við þær tillögur sem hér eru lagðar fram.

Háskólaráð leggur einnig áherslu að þetta eru spennandi tímar og fjöldi umsókna um nám í skólann gefur til kynna að fólk sé almennt jákvætt í garð Háskólans á Akureyri og hefur áhuga á því sem HA er að bjóða. Mikilvægt er að eiga gott samtal við stjórnvöld um fjármögnun háskólans og þá stöðu sem háskólinn stendur frammi fyrir.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:58.