403. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Miðvikudaginn 24.04.2019 kl. 13.30. Borgir, R262

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mættir voru auk hans:

Björn Ingimarsson fulltrúi menntamálaráðherra
Erla Björg Guðmundsdóttir varafulltrúi háskólaráðs
Finnbogi Jónsson fulltrúi háskólaráðs
Hermína Gunnþórsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi stúdenta

Forföll boðuðu:

Brynhildur Pétursdóttir fulltrúi háskólaráðs

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen ritari og starfsmaður háskólaráðs

Gestir:

Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Lars Gunnar Lundsten forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms

Rektor hóf fundinn með því að minnast Ágústs Þórs Árnasonar, aðjúnkts við lagadeild Háskólans á Akureyri, en hann féll frá þann 11. apríl sl. eftir skammvinn og erfið veikindi.
Rektor kynnti dagskrá.

1. Staða doktorsnáms í skipuriti og reglum

Lars Gunnar Lundsten forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms kom inn á fundinn.

Lars lagði fram og kynnti mynd af stöðu doktorsnáms í skipuriti háskólans. Umsóknaferli doktorsnema og verklagið í tengslum við það er ennþá í þróun og mótun innan Miðstöðvar doktorsnáms. Endurskoðun á reglum um doktorsnám mun fara fram síðar á þessu ári. Mikilvægt er að stjórnsýsla og umsjón með doktorsnemum sé samræmd milli sviða innan Háskólans á Akureyri og Miðstöð doktorsnáms er ætlað að vera þessi umsjónar- og samræmingaraðili. Námið sjálft er á ábyrgð fræðasviðanna og doktorsnámsráðs, sem er ígildi námsnefndar eða faglegs umsjónaraðila náms og Miðstöð doktorsnáms heldur utan um alla stjórnsýslu tengda framkvæmd doktorsnámi, doktorsnámsráði og doktorsnemum.

Lars yfirgaf fundinn.

2. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður fjármála og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu sátu þennan lið fundarins.

Forstöðumaður fjármála gerði grein fyrir stöðu mála í uppgjöri ársins 2018. Lokauppgjör liggur ekki fyrir en niðurstaðan er réttu megin við núllið. Háskólaráð samþykkir uppgjör ársins og felur fjármálastjóra og rektor að ljúka við ársreikning í samstarfi við Fjársýslu ríkisins.

Jafnframt kynnti forstöðumaður rekstraryfirlit fyrsta ársfjórðungs. Rekstur háskólans í heild sinni er yfir áætlun en forstöðumaður gerði grein fyrir skýringum á þeirri stöðu, sem jafnast út yfir árið. Reksturinn í heild er í jafnvægi en þó ljóst að hann er í járnum og lítið má út af bregða.

Forstöðumaður fjármála yfirgaf fundinn.

3. Innritun nýnema á haustmisseri 2019 – aðgerðir vegna nemendafjölda

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu sat einnig þennan lið fundarins.

Framkvæmdastjóri fór yfir verklag og aðgerðir sem háskólinn hefur skilgreint til að takmarka nemendafjölda ef umsóknir verða umfram það sem skólinn getur tekið við. Hver deild hefur sett fram sínar áætlanir og viðmið sem tekið verður mið af við val á nemendum. Gert er ráð fyrir að öllum nemendum verði svarað á sama tíma, þ.e. 12. júní.

Rektor kynnti stöðuna í fjölda umsókna. Fjöldi umsókna er örlítið lægri en á sama tíma 2018 en þó umtalsvert fleiri en árið 2017. Miðað við þessa þróun stefnir í að um verði að ræða næst stærsta árgang nýnema við háskólann frá upphafi.

Háskólaráð fagnar þeim mikla áhuga sem greinilega er á námi við Háskólann á Akureyri. En telur mikilvægt að áfram verði fylgst vel með þróun umsóknarfjölda þar sem ekki er hægt að auka álag á starfsfólk og mikilvægt er að standa vörð um gæði námsins. Þær aðgerðir sem hafa verið undirbúnar ef til þess kemur að ekki verður unnt að taka við öllum umsækjendum sem uppfylla skilyrði eiga því enn við miðað við þessar umsóknartölur.

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

4. Mál til kynningar

 • Verklagsreglur um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. Lagt fram til kynningar. Verður lagt fram til samþykktar á fundi í maí.
 • Verklagsreglur vegna málefna fyrrverandi starfsmanna Háskólans á Akureyri á eftirlaunum. Lagt fram til kynningar. Verður lagt fram til samþykktar á fundi í maí.
 • Niðurstöður skýrslna um fagháskólanám

Skýrslur um fagháskólanám, annars vegar fyrir sjúkraliða og hins vegar fyrir vélstjóra, verða sendar til menntamálaráðuneytis á næstu dögum. Um var að ræða sérstaka fjárveitingu til að vinna drög að tillögum um fagháskólanám. Ljóst er að ekki er rúm fyrir slíkt nám innan núverandi fjárveitinga Háskólans á Akureyri og því þarf frekari viðræður við ráðuneytið um hvort fjármagni verði veitt í slíkt nám.

Það er því skýrt af hálfu Háskólans á Akureyri að ekki er hægt að fara af stað með fagháskólanám án þess að til komi aukafjárframlag frá stjórnvöldum.

 • Stöðuskýrsla um málefni hug- og félagsvísindasviðs. Lagt fram til kynningar.
 • Vísindasiðanefnd við HA

Engin vísindasiðanefnd er starfandi við HA. Ákall hefur komið frá vísindaráði HA að setja á fót rannsóknasiðanefnd við háskólann. Siðanefnd HA leggur til að leitað verði eftir samstarfi við vísindasiðanefnd Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og lagt upp með að verði ein vísindasiðanefnd á Norðurlandi. Framkvæmdastjórn HA samþykkti tillögu siðanefndar HA og að rektor hefji samtalið við forstjóra SAk um að útvíkka starf vísindasiðanefndar SAk og að um verði að ræða sameiginlega vísindasiðanefnd HA og SAk.

Á meðan samtalið við SAk fer fram mun rektor óska eftir samstarfi við Háskóla Íslands og óska eftir að starfsfólk HA geti á meðan fengið umfjöllun hjá vísindasiðanefnd HÍ.

 • Jafnréttisvísir

Jafnréttisvísir er stefnumótun og vitundarvakning í jafnréttismálum sem ætlað er að meta stöðu jafnréttismála út frá ítarlegri greiningarvinnu, koma á breytingarverkefnum til að bæta stöðu jafnréttismála og innleiða þau. Háskólinn á Akureyri hyggst fara af stað með þetta verkefni innan háskólans.

 • Endurskoðun á heildarreglum HA – staðan

Heildarendurskoðun á reglum HA hefur staðið yfir þetta skólaár á ábyrgð rektorsskrifstofu. Myndaður hefur verið óformlegur starfshópur með fulltrúum frá öllum fræðasviðum til að rýna drög að endurskoðuðum reglum sem nú liggja fyrir. Stefnt er að því að drög að nýjum reglum verði kynnt á fræðasviðum og á háskólafundi í júní og ágúst.

5. Bókfærð mál til samþykktar

 • Breytingar á reglum um gjaldskrá HA
 • Samkeppnispróf í hjúkrunarfræði á haustmisseri 2019
 • Samkeppnispróf í sálfræði á haustmisseri 2019
 • Nám og kennsluskrá 2019-2020
 • Upplýsingaöryggisstefna HA
 • Persónuverndarstefna HA

6. Önnur mál

Engin önnur mál.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:26.