404. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 23.05.2019 kl. 13.30. Borgir, R262


Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mættir voru auk hans: 

Björn Ingimarsson fulltrúi menntamálaráðherra
Finnbogi Jónsson fulltrúi háskólaráðs
Hermína Gunnþórsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi stúdenta

Forföll boðuðu:

Brynhildur Pétursdóttir fulltrúi háskólaráðs
Erla Björg Guðmundsdóttir varafulltrúi háskólaráðs

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, fundarritari

Gestir:

Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu

Rektor kynnti dagskrá.

1. Rekstur og fjármál

Forstöðumaður fjármála fór yfir rekstraryfirlit janúar til apríl. Reksturinn í heild sinni í jafnvægi og innan áætlunar þó lítið megi út af bregða og ekki mikið svigrúm fyrir óvæntum útgjöldum. Gera má ráð fyrir þyngri kostnaðarliðum á síðari hluta ársins og því mikilvægt að gæta aðhalds og varkárni í rekstri. Mikilvægt er að fylgjast mjög vel með þróun mála hjá stjórnvöldum þar sem forsendur geta breyst ef breytingar verða á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Harpa yfirgaf fundinn.

2. Innritun nýnema á haustmisseri – aðgerðir vegna nemendafjölda

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu fór yfir stöðuna í fjölda umsókna miðað við 15. maí sl. og spá um hver endanlegur fjöldi umsókna getur orðið miðað við þróun umsókna undanfarin ár. Enn eitt árið er mikil aðsókn í nám við Háskólann á Akureyri og fagnar háskólaráð þessum mikla áhuga á því námi sem HA býður upp á. Hins vegar er ljóst að nemendafjöldi er kominn umfram það sem skólinn ræður við út frá starfsmannafjölda og fjárveitingum skólans og því líkur á að það muni þurfa að koma til þess að takmarka aðgengi að einhverjum námsbrautum. 

Háskólaráð mun fresta fundi og afgreiðslu málsins fram til 7. júní nk. en þá mun liggja fyrir endanlegur fjöldi umsókna og tekin verður ákvörðun um heildarfjölda nemenda við háskólann n.k. haust og jafnframt skoðað hvort taka þurfi sérstakar ákvarðanir í tengslum við einstakar námsleiðir eða námsbrautir. Mikilvægt er að fyrir liggi upplýsingar og greiningar um kennslukostnað í hverri deild þar sem mikilvægt er að háskólaráð sé upplýst um þann fjölda nemenda sem hver námsbraut getur tekið við.

Hólmar yfirgaf fundinn.

3. Bókanir vísindaráðs vísað til háskólaráðs – til kynningar og umræðu

Rektor kynnti eftirfarandi bókanir sem hafa borist frá vísindaráði HA til háskólaráðs:

Bókun I: Vísindaráð hefur áhyggjur af fækkun rannsóknastiga á milli ára og vill beina því til Háskólaráðs að hvetja sviðsforseta til að kynna niðurstöður stigamats fyrir sínu starfsfólki með það að markmiði að efla rannsóknir starfsmanna.

Bókun II: Vísindaráð telur að nú sé tækifæri innan HA í markaðs- og kynningarmálum (í ljósi umræðu um fjöldatakmarkanir í HA), að leggja aukna áherslu á að kynna rannsóknir við HA betur, það mun jafnframt byggja undir og styrkja meistara- og doktorsnám við skólann.

Háskólaráð tekur undir bókun vísindaráðs varðandi rannsóknavirkni og hvetur sviðsforseta til að kynna niðurstöður stigamats fyrir starfsfólki með það að markmiði að efla rannsóknir. Jafnframt hvetur háskólaráð sviðsforseta til að hvetja rannsakendur til að koma rannsóknum sínum á framfæri við markaðs- og kynningarsvið til þess að gera rannsóknir og rannsóknavirkni sýnilegri á ytri vef háskólans.

Rektor mun láta gera greiningu á stöðu rannsóknavirkni á fræðasviðum háskólans og skoða möguleika á að styrkja markaðs- og kynningarsvið svo hægt sé að efla umfjöllun um rannsóknir og vísindi á ytri vef háskólans.

4. Bókfærð mál til samþykktar 

  • Reglur um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri. Samþykkt.
  • Reglur vegna málefna fyrrverandi starfsmanna Háskólans á Akureyri á eftirlaunum. Samþykkt.
  • Verklagsreglur – Upplýsingagjöf og eftirfylgni vegna framtals starfa / stigamats. Samþykkt.
  • Skipun stjórnar verkefnasjóðs HA – Akureyrarsjóðs. Samþykkt.

5. Önnur mál

  • Skjalavarsla á fræðasviðum. Umræða varð um skjalavörslu á fræðasviðunum og mikilvægi þess að varðveita gögn deilda og fræðasviða. Háskólaráð beinir því til rektors að ítreka mikilvægi skjalavistunar við forseta fræðasviða til að ganga úr skugga um að mikilvæg gögn úr sögu háskólans glatist ekki og að háskólinn uppfylli skilyrði laga varðveislu gagna sem opinber stofnun.
  • Jafnréttismál og kynjagleraugu í starfsemi HA. Umræða skapaðist um mikilvægi þess að hafa jafnrétti að leiðarljósi í allri umræðu og umfjöllun um málefni háskólans og gæta þess að jafnt sé fjallað um konur og karla, t.d. á vef háskólans. Mikilvægt er jafnréttisstefna háskólans sé í heiðri höfð og að fyrir hendi sé ritstjórnarstefna fyrir vef háskólans.

Fundi frestað kl. 15:40. Fundi verður fram haldið þann 7. júní n.k. þegar liggja fyrir endanlegar tölur um fjölda umsókna fyrir skólaárið 2019-2020 og verður þá haldið áfram með umfjöllun og ákvarðanir í tengslum við 2. dagskrárlið.

Fundur hefst aftur 7. júní 2019 kl. 14:30

Mætt:

Eyjólfur Guðmundsson rektor, Björn Ingimarsson, Finnbogi Jónsson, Erla Björg Guðmundsdóttir, Óskar Þór Vilhjálmsson (varafulltrúi Sigfríðar Ingu Karlsdóttur), Hermína Gunnþórsdóttir, Sólveig María Árnadóttir (via Zoom) ásamt Mörthu Lilju Olsen fundarritara.

Einnig mættir Hólmar Svansson framkvæmdastjóri og Stefán Jóhannsson sérfræðingur í gagnagreiningu.

Aðeins eitt mál var á dagskrá þessa framhaldsfundar 404. háskólaráðsfundar:

Áframhaldandi umfjöllun um 2. dagskrárlið: Innritun nýnema á haustmisseri – fjöldi umsókna

Umsóknarfrestur um nám rann út þann 5. júní sl.

Rektor fór yfir þróun umsókna sl. 5 ár. Árið 2018 (2.160 umsóknir) var metár í fjölda umsókna og umsóknarfjöldi fyrir skólaárið 2019-2020 endaði í nánast sama fjölda og árið 2018, eða 2.104 umsóknir.

Hólmar og Stefán fóru yfir ítarlega greiningu á umsóknum. Stefnt er að því að svara öllum umsóknum þann 12. júní. Miðað við umsóknarfjölda og það hlutfall umsækjenda sem hafa skilað sér í nám undanfarin ár myndi fjöldi nýnema við HA verða um 1.200 í haust, svipað og haustið 2018. Það þýðir að fjöldi nemenda fer enn lengra fram úr þeim fjölda sem HA fær greitt fyrir frá stjórnvöldum og langt umfram það sem háskólinn ræður við út frá núverandi starfsemi, fjölda starfsmanna, húsnæði o.s.frv.

Sólveig yfirgaf fundinn kl. 15:15.

Í sálfræði og lögreglufræði (þar sem samkeppnispróf hafa verið auglýst) er gert ráð fyrir að eingöngu verði teknir inn umsækjendur sem uppfylla skilyrði um stúdentspróf.
Til að komast sem næst því markmiði að nýnemar fari ekki yfir 1000 gerir háskólaráð ráð fyrir að um 1300 umsækjendum verði boðið að hefja nám við HA haustið 2019. Við mat á umsóknum og inntöku á námsbrautir verði miðað við að tekið sé tillit til samfélagslega mikilvægra greina. Háskólaráð felur rektor að ræða við forseta fræðasviða um hvernig þessu markmiði verði náð. Jafnframt er mikilvægt að yfirstjórn háskólans haldi áfram samtalinu við stjórnvöld um aukið fjármagn í ljósi þeirrar miklu fjölgunar umsókna og þar af leiðandi nemenda við HA sl. ár.

Hermína Gunnþórsdóttir og Erla Björg Guðmundsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Í umræðu um inntöku nemenda og inntökuskilyrði kom fram að texta á ytri vef HA um inntökuskilyrði hefði verið breytt með því að stjörnumerkja klausuna um stúdentspróf eða sambærilegt próf undir aðgangsviðmiðum hvers sviðs og hverrar deildar með eftirfarandi skýringu: „Stúdentspróf eða sambærilegt próf frá erlendum skóla“. Í lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 og í reglum fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 er skýrt að deildir taka allar lykilákvarðanir um inntöku og þar með um þau skilyrði sem umsóknir þurfa að uppfylla. Háskólaráð getur hins vegar sett hámarkstölur um inntöku og samþykkt reglur um inntöku sem deildir hafa lagt til. Óskað er eftir því að orðalagið verði fært til fyrra horfs þar til umræða hefur átt sér stað á sviðum og deildum um það hvað telst sambærilegt próf og stúdentspróf, sbr. orðalagið í lögum um háskóla nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 um að nemendur sem hefja nám til fyrstu háskólagráðu í háskóla skuli hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi. Skýra þarf hvað telst jafngilt próf svo það sé engum vafa háð um hverjir uppfylli aðgangsviðmið og hverjir ekki.“

Að lokum þakkaði rektor háskólaráðsfulltrúum samstarfið sl. tvö ár þar sem skipunartími flestra fulltrúa er nú að renna út og fyrir liggur að endurskipa háskólaráð til næstu tveggja ára. Nýtt háskólaráð mun því taka til starfa í ágúst nk.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:45.