410. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Föstudagurinn 24.01.2020 kl. 13.30. Borgir, R262

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mætt voru auk hans:

Brynhildur Pétursdóttir varafulltrúi háskólaráðs (í síma)

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra

Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs (mætti kl. 14:10)

Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins

Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Sólveig María Árnadóttir fulltrúi nemenda

Forföll boðaði:

Katrín Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu ritar fundargerð

Gestir:

Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur


Rekstraryfirlit 2019

Forstöðumaður fjármála fór yfir fyrstu drög að rekstrarniðurstöðu 2019. Fyrstu drög benda til að rekstrarniðurstaða ársins verði innan marka. Ekki er um lokaniðurstöðu að ræða og er helsti óvissuþátturinn tengdur því hvernig farið verður með launaleiðréttingar vegna kjarasamninga sem nýlega voru undirritaðir.

Fjárhagsáætlun 2020


Fjárhagsáætlun 2020 var send inn til Fjársýslu ríkisins með um 46 milljón kr. halla. Þessi halli gerir það að verkum að háskólinn gengur á uppsafnað afgang fyrri ára en það gerir það líka að verkum að stofnunin býr ekki að neinum varasjóðum og stefnir í verulegan halla árið 2021 að óbreyttu.
Forstöðumaður fjármála yfirgaf fundinn.

Grænbók um fjárveitingar til háskóla

Rektor kynnti grænbók um fjármögnun háskóla. Háskólinn á Akureyri mun vinna umsögn um grænbókina. Umsagnarfrestur er til 7. febrúar 2020. Háskólaráð mun fá umsögnina til yfirlestrar áður en hún verður send inn.

2. Innritun nemenda skólaárið 2020-2021


Tillögur vegna hugsanlegra fjöldatakmarkana/aðgerða til að draga úr nemendafjölda

Rektor kynnti tillögur frá framkvæmdastjórn HA vegna áætlunar um aðgerðir til að draga úr nemendafjölda. Aðgerðir eru nauðsynlegar vegna mikillar fjölgunar nemenda undanfarin ár án þess að til hafi komið aukið fjármagn frá stjórnvöldum. Fjölgunin hefur valdið miklu álagi á innviði og starfsfólk háskólans og nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr álagi á starfsfólk og svo ekki verði dregið úr gæðum námsins.

Eftirfarandi tillögur liggja fyrir til kynningar og umræðu:

  • Stúdentspróf og jafngildi þess: Samkvæmt lögum er stúdentspróf eða sambærilegt próf skilyrði fyrir inngöngu í háskóla. Háskólinn á Akureyri skilgreinir stúdentspróf sem stúdentspróf frá innlendum skóla sem hefur heimild menntamálaráðuneytis til að brautskrá stúdenta eða erlent stúdentspróf sem metið er jafngilt af sérfræðingum.
  • Nám af háskólabrú eða frumgreinanám telst ekki jafngilt stúdentsprófi og ber að fara með umsóknir þeirra sem hafa slíkt nám sem undanþáguumsóknir.
  • Þak á fjölda samþykktra nýrra umsókna vorið 2020. Lagt verði upp með að ekki verði samþykktar fleiri en u.þ.b. 1100 umsóknir og að hverju fræðasviði verði úthlutað námsplássum hlutfallslega innan þess ramma.

Nauðsynlegt er að allar deildir háskólans leggi fram skýr aðgangsviðmið og setji fram reglur og verklag um aðferðir og forsendur við val á nemendum ef umsóknir sem uppfylla skilyrði verða umfram þau námspláss sem viðkomandi deild er úthlutað.
Ofangreinar tillögur eru lagðar fram til kynningar og gert ráð fyrir að lokaákvörðun verði tekin í febrúar. Rektor mun í millitíðinni kynna aðgerðirnar fyrir menntamálaráðuneytinu.

Takmarkanir á fjölda nemenda á fyrsta ári í sálfræði

Lögð fram tillaga frá forseta hug- og félagsvísindasviðs, f.h. sálfræðideildar, að fjöldi nemenda sem öðlast rétt til náms á 1. námsári í sálfræði á vormisseri 2021 verði miðaður við töluna 60. Tillagan samþykkt.

3. Nemendafjöldi á vormisseri

Lögð fram gögn um fjölda innritaðra nemenda á vormisseri 2020. Ekki um lokatölur að ræða þar sem nemendur hafa tíma til mánaðamóta til að staðfesta skráningu.

4. Úthlutun rannsóknamissera skólaárið 2020-2021

Rektor vinnur formlega tillögu sem verður send rafrænt á háskólaráð til samþykktar á milli funda.

5. Til kynningar

Stöðuskýrsla um innleiðingu persónuverndarlaga við Háskólann á Akureyri
Lagt fram til kynningar.

6. Bókfærð mál til samþykktar

Kennslualmanak 2020-2021. Samþykkt.
Skipunartími gæðaráðs framlengdur. Breytingar á reglum í undirbúningi. Háskólaráð samþykkir að framlengja skipunartíma núverandi gæðaráðs út skólaárið.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:15.