423. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐ
Fimmtudaginn 18.02.2021 kl. 13:30. Rafrænn fundur á Teams

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:31.

Mætt voru auk hans:

Bjarni Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:

Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Jón Torfi Jónasson formaður stjórnar Vísindasjóðs
Vaka Óttarsdóttir gæða- og mannauðsstjóri

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

2102028

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu kynnti lokadrög að rekstrarniðurstöðu 2020. Áætlaður afgangur af rekstri er um 26,2 milljónir og er því heildarrekstur skólans fyrir árið 2020 innan fjárheimilda.

Framkvæmdastjóri kynnti rekstraryfirlit fyrir janúar 2021. Um bráðabirgðatölur að ræða en reksturinn í jafnvægi og í takt við áætlanir.

Rektor kynnti yfirlit yfir þróun nemendafjölda frá árinu 2018 og í því ljósi er þakkarvert hversu vel háskólinn stendur vel rekstrarlega. Líklegt er að aðsókn í háskóla á Íslandi í vor verði mikil og því útlit fyrir mikinn fjölda umsókna um nám við Háskólann á Akureyri. Það er því mikilvægt að áfram verði unnið að og skilgreind skýr aðgangsviðmið í einstakar námsbrautir innan skólans, sérstaklega ef til kemur breyting á lögum um háskóla að því er varðar inntökuskilyrði í háskóla.

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

2. Starfsemi á vormisseri 2021

Reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar hefur ekki breyst. Enn eru 20 manna takmarkanir í hverju hólfi, leyfi fyrir allt að 50 nemendum í kennslu að viðhöfðum sóttvarnarráðstöfunum, grímuskyldu og 2 metra fjarlægð. Ekki er gert ráð fyrir breytingum fyrr en í kringum mánaðamótin febrúar/mars. Skólastarf gengur almennt vel og er undirbúningur fyrir stofnanaúttekt í fullum gangi eins og nánar verður komið að á liðnum um gæðaúttektir.

Vinna við nýtt reiknilíkan háskólanna er enn í gangi í menntamálaráðuneytinu og vonast eftir niðurstöðu í þeirri vinnu fljótlega. Framundan er svo endurskoðun innra deililíkans Háskólans á Akureyri.

Útlit er fyrir að árið 2021 verði enn eitt metár – bæði að því er varðar nemendafjölda en ekki síður að því er varðar starfsmannafjölda þar sem aukið fjármagn gerir skólanum kleift að hrinda í framkvæmd mannauðsáætlun og hefja ráðningar við skólann. Hér er um að ræða mikla uppsafnaða þörf á fjölgun starfsfólks í ljósi mikillar fjölgunar nemenda frá árinu 2014. Skólinn stendur á traustum grunni rekstrarlega og á starfsfólk skólans miklar þakkir skildar fyrir óeigingjarnt starf undir miklu álagi undanfarin ár og ekki síður vegna þess aukins álags sem COVID-19 hefur fært skólanum.

3. Úthlutun úr Rannsóknasjóði HA

2102033

Jón Torfi Jónasson formaður stjórnar Vísindasjóðs HA kynnti úthlutun úr Rannsóknasjóði HA 2021. Sjóðurinn hafði 20 milljónir til úthlutunar. Samtals bárust 23 umsóknir en 18 umsóknir fengu úthlutuðum styrk.

Jón Torfi ræddi í framhaldi um ýmsar breytingar sem stjórn sjóðsins telur þörf á, bæði að því er varðar umhverfi og nýtingu þess fjár sem ætlað er til að styrkja rannsóknastarf sem og nauðsynlegar breytingar á núverandi reglum Vísindasjóðs HA.

Formaður stjórnar Vísindasjóðs yfirgaf fundinn.

Háskólaráð felur rektor að vinna áfram með þær tillögur sem liggja fyrir um breytingar á rannsóknasjóði í skýrslu og fýsileikakönnun sem unnin var árið  2020 og þeim tillögum sem stjórn sjóðsins mun leggja fram á næstunni. Háskólaráð ítrekar tilmæli um nauðsyn þess að efla rannsóknasjóðinn með það að markmiði að styðja enn betur við rannsóknir starfsfólks Háskólans á Akureyri. Mikilvægt er að samráð verði haft við deildir og fræðasvið háskólans.

4. Gæðaúttektir

2005024, 2101050

Vaka Óttarsdóttir, gæða- og mannauðsstjóri kom inn fundinn.

Farið var yfir þau stóru verkefni sem eru í gangi og framundan eru í gæðaúttektum innan HA. Deildir háskólans hafa farið í gegnum  sjálfsmatsvinnu undanfarin 2 ár og úttekt á lögreglufræðinámi er á lokametrunum en beðið er eftir lokaskýrslu úttektarnefndar. Þessi vinna er svo undirstaðan í undirbúningi fyrir stofnanaúttekt, sem er í fullum gangi en fyrirhuguð heimsókn matsnefndar stofnanaúttektar fer fram á haustmisseri 2021. Stofnanaúttektin er stórt verkefni sem krefst mikillar þátttöku, undirbúnings og skuldbindingar af hálfu háskólans þar sem mikill fjöldi starfsfólks þarf að koma að. Mikilvægt er að styðja vel við þessa vinnu og jafnframt mikilvægt að byggja frekar upp og styðja við verklag og ferla í tengslum við vinnu við sjálfsmat deilda.

5. Bókfærð mál til samþykktar

  • Nám- og kennsluskrá 2021-2022.
  • Breyting á reglum nr. 202/2017 um Heilbrigðisvísindastofnun HA.
  • Breyting á reglum nr. 864/2009 um stjórnskipulag viðskipta- og raunvísindasviðs.
  • Staðgengill rektors 2021. Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir forseti heilbrigðisvísindasviðs mun gegna hlutverki staðgengils rektors út skólaárið 2021.

Ofangreind mál samþykkt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00.