Reglur um nýráðningar akademísks starfsfólks við HA

NR. 724/2023

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 22.06.2023

vefútgáfa síðast uppfærð 19.10.2023

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

 1. Markmið og gildissvið
 2. Auglýsing um akademískt starf
 3. Umsóknir um akademísk störf
 4. Dómnefnd
 5. Málsmeðferð dómnefndar
 6. Mat dómnefndar á hæfi umsækjenda
 7. Dómnefndarálit og afgreiðsla máls
 8. Valnefndir og ákvörðun um ráðningu
 9. Hæfismat forseta fræðasviða, gestaprófessora og annarra samstarfsaðila
 10. Gildistaka

1. gr. Markmið og gildissvið

Reglur þessar fjalla um nýráðningar í akademísk störf við Háskólann á Akureyri og byggjast á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, lögum um háskóla nr. 63/2006, reglum fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, reglum nr. 1000/2019 um auglýsingar lausra starfa og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
 
Akademískt starfsfólk Háskólans á Akureyri eru prófessorar, dósentar og lektorar.
 
Upphafleg ráðning í starf lektors, dósents eða prófessors við Háskólann á Akureyri skal að öllu jöfnu vera tímabundin og til fimm ára, hvort sem um er að ræða fullt starf eða hlutastarf. Þegar sérstaklega stendur á, svo sem þegar um er að ræða veikinda- eða barnsburðarleyfi, er heimilt að framlengja tímabundna ráðningu um allt að tvö ár fram yfir fimm ára markið. Starfsmaður öðlast ekki sjálfkrafa rétt til ótímabundinnar ráðningar að lokinni tímabundinni ráðningu. Rektor tekur ákvörðun um ótímabundnar ráðningar akademískra starfsmanna, að fengnu áliti dómnefndar og í samræmi við reglur um ótímabundna ráðningu akademísks starfsfólks við Háskólann á Akureyri.
 
Rektor getur þó ákveðið að upphafleg ráðning í starf lektors, dósents eða prófessors sé tímabundin til skemmri tíma en fimm ára eða ótímabundin, enda hafi fræðasvið rökstudda ástæðu til þess að víkja frá meginreglunni um tímabundna ráðningu.
 
Ekki er heimilt að ráða einstakling í starf lektors, dósents eða prófessors án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið viðkomandi uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi, sbr. reglur þessar.
 

2. gr. Auglýsing um akademískt starf

Um auglýsingu á lausum störfum háskólakennara og undantekningar frá auglýsingaskyldu er fjallað í 33. og 34. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022.
 
Áður en akademískt starf er auglýst skal deildarforseti viðkomandi deildar leita samþykkis deildarfundar og forseta fræðasviðs. Forseti fræðasviðs staðfestir að starfið sé innan fjárheimilda og í samræmi við mannauðsáætlun fræðasviðs. Skrifstofa gæða- og mannauðsmála heldur utan um ráðningarferli akademískra starfa, þ.m.t. auglýsingar á lausum störfum.
 
Deildarforsetar hafa umsjón með gerð auglýsinga um akademísk störf við deild sína og skulu drög að auglýsingu og skilgreiningu á starfi samþykkt á deildarfundi. Í auglýsingu skulu koma fram sérstakar hæfniskröfur varðandi hið auglýsta starf, þ. á m. krafa um doktorspróf, nema deild telji að því verði ekki við komið, sbr. 32. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022 og skal þá rökstuðningur fyrir því fylgja auglýsingu til forseta fræðasviðs ásamt skilgreiningu á því til hvaða alþjóðlegu viðmiða skuli horft ef víkja á frá kröfunni um doktorspróf. Einnig er mikilvægt að fram komi almennar hæfniskröfur, s.s. samskiptahæfni, hæfni til að starfa sjálfstætt og fleiri skilyrði sem talin eru nauðsynleg til að gegna viðkomandi starfi. Vísa skal til málstefnu og jafnréttisáætlunar háskólans í auglýsingu. Þá skal koma fram að auk þeirra hæfnisskilyrða sem talin eru upp verði litið til þess að sá einstaklingur sem starfið hljóti falli sem best að aðstæðum og þörfum viðkomandi deildar og fræðasviðs. Æskilegt er að fyrir liggi greining á þörfum og aðstæðum deildar áður en auglýsing er birt.
 
Skrifstofa gæða- og mannauðsmála heldur utan um skapalón fyrir auglýsingar, les yfir og staðfestir að auglýsing uppfylli formkröfur áður en hún er birt. Skrifstofa gæða- og mannauðsmála gengur endanlega frá auglýsingu um starf og sér um að birta hana á Starfatorgi og vefsíðu Háskólans á Akureyri. Ákvörðun um frekari auglýsingu, hvort sem er á innlendum eða erlendum vettvangi, er tekin af viðkomandi deild/fræðasviði og er kostnaður við slíka auglýsingu jafnframt borinn af viðkomandi deild/fræðasviði. Að jafnaði er umsóknarfrestur fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.
 

3. gr. Umsóknir um akademísk störf

Skrifstofa gæða- og mannauðsmála heldur utan um umsóknar- og ráðningarferli akademískra starfa við Háskólann á Akureyri. Umsóknir um akademísk störf skulu sendar á rafrænu formi í gegnum ráðningarkerfi háskólans eða, ef slíkt er ekki mögulegt, beint til skrifstofu gæða- og mannauðsmála. Að umsóknarfresti liðnum staðfestir skrifstofa gæða- og mannauðsmála móttöku umsóknar og gengur úr skugga um að umsækjendur hafi skilað öllum gögnum samkvæmt auglýsingu.
 
Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni skýrslu um vísindastörf þau er þeir hafa unnið, ritsmíðar, þróunarverkefni, listaverk, hönnunarverk og rannsóknir, svo og vottorð um námsferil sinn og störf. Með umsókninni skulu send eintök af vísindalegum ritum og ritgerðum, birtum eða óbirtum, og myndir eða lýsingar af listaverkum og hönnunarverkum, sem umsækjendur óska eftir að tekin verði til mats. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að ritverki, hönnunarverki eða listaverki skal umsækjandi gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafi unnið að, hverju þeir séu að vinna að og hver áform þeirra eru ef til ráðningar kæmi. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Heimilt er í auglýsingu að takmarka hámarksfjölda eintaka af gögnum frá hverjum umsækjanda, til dæmis þannig að umsækjendur séu beðnir um að senda inn eintök af tilteknum hámarksfjölda vísindarita sem þeir sjálfir telja mikilvægust.
 
Eftir að umsóknarfresti um starf lýkur eru nöfn umsækjenda opinber. Skrifstofa gæða- og mannauðsmála felur í framhaldinu stjórnsýslu rannsókna að annast meðferð umsókna og að eiga samskipti við umsækjendur og dómnefnd háskólans sem metur hæfi umsækjenda.
 

4. gr. Dómnefnd

Við Háskólann á Akureyri starfar föst þriggja manna dómnefnd sem hefur það hlutverk að meta hæfi þeirra sem sækja um akademísk störf eða fá boð um slíkt starf, sbr. 37. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022. Gæta skal þess að í dómnefnd sitji bæði karlar og konur. Rektor skipar dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs til tveggja ára í senn. Dómnefnd Háskólans á Akureyri fjallar um umsóknir um akademísk störf, umsóknir um framgang í akademísku starfi og umsóknir um ótímabundnar ráðningar í akademísk störf. Í dómnefnd má skipa þau ein sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla og er miðað við að þau sem skipuð eru í dómnefnd hafi viðamikla reynslu af rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum. Fastafulltrúar í dómnefnd skulu hafa að lágmarki dósentshæfi, nema formaður, sem skal hafa verið metinn hæfur til að gegna starfi prófessors. Þegar dómnefnd fjallar um umsóknir um stöðu prófessors skal tryggt að allir nefndarfulltrúar sem standa að matinu séu með prófessorshæfi. Sviðsforseti tilnefnir ytri ráðgjafa, hverju sinni, er skal vera dómnefnd til ráðgjafar þegar fræðistörf umsækjenda eru metin. Við sérstakar aðstæður er heimilt að skipa fleiri en einn ytri ráðgjafa.
 
Þegar umsóknarfresti er lokið óskar stjórnsýsla rannsókna eftir tilnefningu ytri ráðgjafa í dómnefnd og skipar viðkomandi í nefndina í framhaldi af því.
Um sérstakt hæfi dómnefndarmanna fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heimilt er að taka upp sérstakar verklagsreglur sem kveða nánar á um störf dómnefndar.
 
Forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna skipar ritara dómnefndar. Hlutverk hans er að aðstoða dómnefnd og gæta þess að störf hennar séu í samræmi við stjórnsýslulög, lög um opinbera háskóla, reglur þessar og önnur lög og reglur sem við eiga. Honum ber sérstaklega að gæta þess að dómnefnd starfi í samræmi við þau tímamörk sem kveðið er á um í reglum þessum.
 
Ritari dómnefndar undirbýr umfjöllun um umsóknir og tryggir að öll viðhlítandi umsóknargögn, og eftir atvikum staðfestingar og vottorð, liggi fyrir þegar dómnefnd fjallar um mál. Formaður dómnefndar stýrir starfi hennar og skiptir verkum með dómnefndarfulltrúum.
 

5. gr. Málsmeðferð dómnefndar

Dómnefnd skal meta hvern umsækjanda á þann veg að ótvírætt komi fram hvort hún dæmir hann hæfan eða ekki hæfan til að gegna því starfi sem um ræðir. Hún metur hvort menntun og aðrar forsendur umsækjanda falli með eðlilegum hætti innan þess sviðs sem auglýsing kveður á um. Í áliti dómnefndar skal koma fram rökstuðningur fyrir dómi hennar um hæfi umsækjanda og auk þess þær upplýsingar sem dómnefnd telur leiðbeinandi fyrir forseta fræðasviðs eða rektor við endanlega ákvörðun um ráðningu. Dómnefnd tekur þó ekki afstöðu til samstarfs- og samskiptahæfni umsækjenda, þótt slíkar hæfniskröfur kunni að koma fram í auglýsingu um starfið. Dómnefnd er heimilt að styðjast við eldri dómnefndarálit við mat sitt á umsækjanda ef álitið er ekki eldra en fimm ára. Skal slíkt þá koma fram í niðurstöðu nefndarinnar með viðeigandi tilvitnunum í eldra álit og rökstuddri afstöðu nefndarinnar til þess sem þar kemur fram. Ef ágreiningur er í dómnefnd skulu greidd atkvæði sérstaklega um hvern umsækjanda og ber hverjum dómnefndamanni þá að taka afstöðu. Standi atkvæði jöfn skal atkvæði formanns gilda tvöfalt. Minnihluta gefst kostur á að gera grein fyrir máli sínu með séráliti. Teljist umsækjandi ekki hæfur ber dómnefnd að gera sérstaklega grein fyrir þeirri niðurstöðu, en að öðru leyti þarf umfjöllun ekki að vera eins ítarleg og um þau sem teljast hæf.
 
Telji dómnefnd líkur á að umsækjandi uppfylli kröfur um að gegna æðri stöðu en ráðið skal í hverju sinni skal hún geta þess í dómnefndarálitinu, en ekki þarf að rökstyðja það með sama hætti og álitið um stöðuna sem til stendur að ráða í.
 
Dómnefnd er heimilt að óska eftir því við umsækjendur að þeir láti í té viðbótargögn. Ef slík viðbótargögn eru umsækjanda í óhag skal honum gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Jafnræðis skal gætt þannig að sömu gagna sé aflað frá öllum umsækjendum.
 
Dómnefnd skal hraða störfum sínum eftir föngum og skal hún að jafnaði hafa lokið störfum innan 30 daga frá því að ytri ráðgjafi er tilnefndur. Ef fyrirsjáanlegt er að störf dómnefndar muni dragast fram yfir framangreindan frest ber dómnefnd að senda umsækjendum tilkynningu um það þar sem greint er frá því hverjar ástæður tafanna eru og hvenær megi vænta þess að dómnefnd ljúki störfum. Gangi sú áætlun ekki eftir ber að senda tilkynningu á nýjan leik. Dómnefnd skal senda forseta fræðasviðs afrit af framangreindum tilkynningum. Ritari dómnefndar sendir framangreindar tilkynningar fyrir hönd dómnefndar.
 
Að loknu starfi dómnefndar ber ritari nefndarinnar ábyrgð á að vista öll gögn dómnefndar í rafrænt skjalavörslukerfi háskólans.
 

6. gr. Mat dómnefndar á hæfi umsækjenda

Þau sem hljóta akademískt starf við Háskólann á Akureyri eða við stofnun innan hans skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar, eða hafa doktorspróf frá viðurkenndum háskóla. Þau skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þau njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði frá viðurkenndum háskóla, nema að deild telji að því verði ekki viðkomið og hafi rökstutt það.
 
Stigagjöf samkvæmt reglum þessum byggir á matskerfi opinberra háskóla, sbr. töflu 1. og 2 í þessari grein, þar sem kveðið er á um lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt kennara.
Dómnefnd getur við sérstakar aðstæður gert meiri eða minni kröfur um lágmarksrannsóknastig ef hún telur ástæðu til. Hér er átt við aðstæður t.d. samkvæmt ákvæði um ríka áherslu háskólans á góð tengsl við atvinnulífið. Jafnframt er heimilt að víkja frá reglum um lágmarksrannsóknastig þar sem viðkomandi hefur gegnt starfi sviðsforseta enda hafi miklar stjórnunarkröfur, þar með taldar kröfur um samhæfingu rannsókna á eigin fræðasviði, rýrt möguleika viðkomandi til að stunda sjálfstæðar rannsóknir. Víki mat dómnefndar verulega frá lágmarksstigum fyrir hvern starfsþátt þarf hún að rökstyðja það sérstaklega, enda um frávik frá meginreglu að ræða.
 
Dómnefnd ber að gera meiri kröfur til umsókna um starf prófessors en umsókna um önnur störf. Umsækjendur um störf prófessora skulu vera virkir í rannsóknum og hafa sýnt verulega hæfni og frumkvæði í vísindastörfum.
Tafla 1. Lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt kennara.
  Rannsóknir Kennsla Stjórnun, þjónusta, annað Mismunur Alls
Lektor/Sérfræðingur 30 - - 0 30
Dósent 130 20 - 50 200
Prófessor 270 50 - 80 400
Tafla 2. Lágmarksfjöldi stiga úr tilgreindum flokkum rannsóknahluta matskerfis.
 
Ritrýndar bækur (yfir 25 stig)
ISI greinar
Aðrar ritrýndar greinar
Greinar í alþjóðlegum ráðstefnuritum
Bókarkaflar, alþjóðlegar akademískar útgáfur
Lektor/Sérfræðingur -
Dósent/Fræðimaður 80/90
Prófessor/Vísindamaður 180/200
Að teknu tilliti til menntunar skal mat byggjast á eftirfarandi starfsþáttum: rannsóknum, kennslu og stjórnun:
 

a) Rannsóknir

Við mat á rannsóknum og þróunarverkefnum skal leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Gefa skal gaum að frumleika þeirra og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum, ritverkum, meðferð heimilda og vísindalegum vinnubrögðum, nýjungum og notagildi. Einnig er heimilt að taka tillit til starfa að rannsóknum sem standa yfir þó að niðurstöður liggi ekki fyrir, enda lýsi umsækjandi eðli þeirra og umfangi og geri grein fyrir stöðu þeirra.
 
Við mat á rannsóknum og þróunarverkefnum er eðlilegt að tillit sé tekið til lokaverkefna í háskólanámi (kandídats- eða meistaraprófsritgerða eða doktorsritgerða). Þá skal meta útgefin hugverk, fræðileg rit, prentuð eða fjölrituð, rit um þróunarverkefni, útgefið námsefni, greinar í fræðilegum tímaritum og bókum (safnritum), innlendum og erlendum, þar sem efni er metið af sérfræðingum, svo og greinar í öðrum tímaritum og bókum, fræðilegar útgáfur og ritdóma. Þá skal meta greiningartæki, próf og önnur gögn sem samin eru með hagnýta notkun fagstétta á vettvangi í huga. Þá skal og meta þýðingar úr erlendum málum, verk á mynd- og hljóðböndum, svo og frumsamin og aðlöguð tölvuforrit. Heimilt er að taka tillit til óbirtra verka, t.d. fræðilegra fyrirlestra sem hafa ekki verið birtir.
 
Við mat á listsköpun skal leggja áherslu á að framlögð verk uppfylli kröfur um listrænan metnað, frumleik og vinnubrögð er sýni vald og kunnáttu höfundar á þessu sviði.
Við mat á hönnunarverkefnum skal leggja áherslu á gildi verkanna, frumleika, framlagða muni eða lýsingar á þeim. Skal þá eftir atvikum huga að rannsóknum að baki verka og vinnubrögðum, svo og frumleika höfundar og sjálfstæði.
 
Á sviðum þar sem reynir á flókna hreyfifærni eða skapandi tjáningu, eins og í leikrænni tjáningu, hljóðfæraleik, dansi og íþróttum, skal auk annars meta hagnýta reynslu, iðkun og leikni.
 
Í mati sínu á framlagi umsækjenda til rannsókna er eðlilegt að dómnefnd taki mið af hversu vel það tengist markmiðum háskólans, sbr. 3. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 2. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Við mat á rannsóknum er heimilt að taka tillit til stjórnunarstarfa sem falla undir sérsvið umsækjenda, t.d. stjórn og skipulagningu langtímarannsóknaverkefna, undirbúning og stjórn fræðilegra ráðstefna, ritstjórn fagtímarita og þjálfunarstörf.
 
Háskólinn á Akureyri leggur ríka áherslu á góð tengsl við atvinnulífið og nánasta umhverfi sitt. Dómnefnd er því heimilt að taka tillit til kennslu- og stjórnunarreynslu sem umsækjandi hefur aflað sér og annarra starfa utan veggja háskólastofnana, að svo miklu leyti sem slíkt nýtist í því starfi sem sótt er um. Sérstaklega skal hér meta umsækjanda til tekna, sem ígildi rannsókna, frumkvæði og nýsköpun í fyrri störfum.
 
Hafi umsækjandi unnið með öðrum að rannsóknaverkum, listsköpun, hönnunar- og þróunarverkum eða námsefnisgerð og ekki kemur skýrt fram í ritverki eða umsókn hver hlutur hans er skal jafnan afla traustra upplýsinga um þetta og meta hlut hans eftir því. Dósentar og prófessorar skulu sýna ótvírætt fram á hæfni sína til sjálfstæðra starfa að nýsköpun þekkingar. Meta skal mikils ef þau hafa náð árangri við að afla fjármuna frá innlendum eða erlendum aðilum til rannsóknar- eða þróunarverkefna. Umsækjendur um prófessorsstöður þurfa að vera vel virtir á sínu sérsviði og hafa sýnt verulega hæfni og frumkvæði í vísindastörfum eða á sviði listrænnar sköpunar.
 
Auk hinna almennu ákvæða um lágmarkskröfur og mat starfsþátta, sem þegar hafa verið tíunduð, skal dómnefnd taka mið af þeim kröfum sem gerðar eru til umsækjanda um sambærileg störf í viðurkenndum erlendum og innlendum vísindastofnunum.
 

b) Kennsla

Við mat á kennslu skal leggja áherslu á hæfni umsækjenda til kennslu á viðkomandi sérsviði þannig að hún nýtist nemendum sem best.
 
Umsækjandi skal láta fylgja umsókn sinni rökstudda greinagerð þar sem fram kemur á hvaða þætti viðkomandi sviðs hann vill leggja áherslu, hver megintilgangur hans er, hvernig vinnubrögðum hann hyggst beita og hvernig hann hyggst meta árangur sinn og nemenda. Hafi umsækjandi kennslureynslu á háskólastigi og/eða öðrum skólastigum, skal hann einnig láta fylgja greinargerð þar um, ásamt öðrum þeim gögnum sem snerta kennslureynslu hans.
 
Við mat á kennsluþættinum má leggja til grundvallar umsögn sviðs, deildar, brautar eða nemenda, svo og faglegt mat á kennslu ef því verður við komið.
 

c) Stjórnun

Við mat á stjórnun skal leggja áherslu á frumkvæði og forystuhæfni umsækjanda, hæfni til sjálfstæðrar skipulagningar og áætlunargerðar sem og til að vinna að stjórnsýsluverkefnum með öðrum.
 
Af starfsþáttunum þremur - kennslu, rannsóknum og stjórnun – vegur sá síðast taldi yfirleitt minnst. Þess er einnig að gæta að stjórnun verður ekki alltaf glöggt afmörkuð frá rannsóknum og kennslu. Stundum getur því verið eðlilegt að meta þennan starfsþátt sem hluta af hinum tveimur en varast ber þá jafnan að tvítelja hann.
 
Um mat á stjórnun gildir hið sama og um kennslu að það fer mjög eftir starfsreynslu umsækjanda hvað unnt er að meta og hvernig standa beri að mati. Að þessu leyti getur staða umsækjanda sem nýlega hefur lokið prófi frá háskóla verið harla ólík þess sem hefur reynslu af því að starfa við háskóla eða á öðrum faglegum starfsvettvangi. Því er eðlilegt að líta svo á, þegar um ráðningu í nýja stöðu er að ræða, að stjórnunarreynsla teljist umsækjanda alla jafna til tekna en sé ekki skilyrði fyrir því að hann geti hlotið stöðuna.
 
Þáttum sem metnir verða má skipta í tvennt:
 • Reynsla af stjórnun og skipulagningu. Um er að ræða atriði er umsækjandi getur vottað með gögnum sem hægt er að meta:
  • 1) Skipulagning á sjálfstæðum eða samþættum námskeiðum.
  • 2) Stjórnunargögn sem umsækjandi hefur samið sjálfur eða átt hlut að því að semja (umsagnir, álitsgerðir, tillögur, drög að reglum eða reglugerðum o.s.frv.).
  • 3) Þátttaka í nefndum sem umsækjandi hefur verið kjörinn eða skipaður í.
  • 4) Þátttaka í stjórnum og ráðum með ákvörðunarvald, bæði innlendum og fjölþjóðlegum.
  • 5) Þátttaka í vísinda- og fræðafélögum.
  • 6) Önnur almenn reynsla af stjórnunarstörfum.
 • Persónueiginleikar sem skipta máli fyrir stjórnunar- og samskiptahæfni. Gögn af því tagi sem að framan greinir segja sína sögu um stjórnunarhæfni umsækjanda; þau eru í senn vitnisburður um dugnað hans og metnað á þessu sviði og það álit sem hann hefur áunnið sér. Ætla má að álit annarra ráðist hér mjög af ákveðnum þáttum í fari umsækjanda, s.s. ábyrgðarkennd, forystuhæfni, lipurð í samskiptum, skipulagshæfni og glöggskyggni. Umsagnir yfirmanna og samstarfsmanna umsækjanda geta því komið að góðu haldi við matið.
Mikilsvert er að matsaðilar fái í hendur sem gleggstar upplýsingar um hvað umsækjandi hefur til brunns að bera á sviði stjórnunar. Að þessu þarf að kveða í sjálfum stöðuauglýsingunum. Þá er æskilegt að umsækjandi, sem hefur starfsreynslu að baki, vísi á umsagnaraðila (t.d. yfirmann í stofnun, deild eða námsbraut) eða sjái til þess að hann sendi inn umsögn beint til háskólans. Eins er æskilegt að umsækjandi, sem nýlega hefur lokið námi, leiti eftir hinu sama hjá kennara sem þekkir vel til hans úr framhaldsnámi.
 

d) Önnur störf

Tilgangur þess að meta önnur störf umsækjanda en rannsóknir, kennslu og stjórnun á viðkomandi fræðasviði er sá að varpa ljósi á starfshæfni hans frá sem flestum hliðum. Hér er um að ræða mat á störfum sem falla utan þess sérsviðs sem auglýsing tekur til en þarfnast sambærilegrar hæfni svo sem sjálfstæð ritun, ritdómar, erindi eða þættir í útvarpi, sjónvarpi, önnur störf við fjölmiðla, ritstjórn bóka, tímarita, almannatengsl eða virk tengsl í samstarfi við marga aðila innanlands eða erlendis, ráðstefnuhald, stjórnun félaga, stjórnun námskeiða, dómnefndarstörf, þróunarstörf, ráðgjöf við stofnanir eða fyrirtæki, sjálfstætt starfandi sem sérfræðingur á öðru fræðasviði o.s.frv.
 
Önnur störf en þau sem unnin eru beinlínis á auglýstu sviði ráða ekki úrslitum um hæfismat. Mat á þeim getur heldur ekki dregið niður mat á nýsköpun, kennslu eða stjórnun á auglýstu sérsviði. Mat þetta gefur fyrst og fremst viðbótarupplýsingar um starfshæfni umsækjanda.
 

7. gr. Dómnefndarálit og afgreiðsla máls

Í dómnefndaráliti skal rökstutt hvort ráða megi af ritum og rannsóknum umsækjanda svo og námsferli hans og störfum, að hann uppfylli lágmarksskilyrði til að gegna hinu auglýsta starfi. Ef umsækjandi er talinn uppfylla lágmarksskilyrði telst hann hæfur til að gegna hinu auglýsta starfi.
 
Við undirbúning dómnefndarálits skal litið til þeirra formkrafna sem koma fram í reglum þessum. Dómnefndarálit skal vera afdráttarlaust um hvort umsækjandi uppfylli lágmarsskilyrði eða ekki en dómnefnd er óheimilt að forgangsraða umsækjendum í áliti sínu. Leitast skal við að dómnefnd hafi lokið við dómnefndarálit innan 30 daga frá því að öll gögn liggja fyrir og ytri ráðgjafi í dómnefnd hefur verið tilnefndur. Ef fyrirsjáanlegar tafir verða á afgreiðslu nefndarinnar skal ritari dómnefndar upplýsa umsækjendur um það og hvenær niðurstöðu megi vænta.
 
Dómnefndarálit skal sent forseta viðkomandi fræðasviðs, eða eftir atvikum rektor. Ef sviðsforseti, eða rektor, telur að dómnefndarálit eða málsmeðferð dómnefndar sé ekki í samræmi við lög og reglur, eða sé ekki fullnægjandi, ber honum að senda nefndinni álitið aftur með rökstuðningi um það sem betur megi fara. Ber nefndinni þá að bæta úr ágöllum.
 
Þegar dómnefndarálit liggur fyrir skal það sent umsækjendum og þeim gefinn viku frestur til að gera athugasemdir við álitið. Umsækjendur eru bundnir trúnaði um efni álitsins. Ef möguleiki er á að athugasemdir umsækjanda geti haft áhrif á niðurstöður dómnefndar eru þær bornar undir dómnefnd og ef þörf krefur óskað frekari skýringa. Ef umsækjandi dregur umsókn sína til baka á þessu stigi ferlisins á hann rétt á að umfjöllun um hæfi hans sé tekin út úr álitinu áður en það er sent til meðferðar hjá valnefnd. Þegar frestur til athugasemda er liðinn er störfum dómnefndar lokið.
 
Þegar dómnefnd hefur lokið störfum sendir ritari dómnefndar dómnefndarálit, ásamt umsóknargögnum um þá sem eru metnir hæfir, til formanns valnefndar viðkomandi deildar, með afriti til ritara valnefndar og forseta fræðasviðs, eða eftir atvikum rektors. Þegar dómnefndarálit hefur borist til valnefndar telst það vera endanlegt og fullfrágengið.
 

8. gr. Valnefndir og ákvörðun um ráðningu

Þegar dómnefnd hefur lokið umfjöllun sinni og mati á hæfi umsækjenda um akademísk störf er umsóknum vísað til valnefndar. Um skipan og málsmeðferð valnefnda er kveðið á um í 38. og 39. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022. Enn fremur er kveðið á um störf valnefndar í verklagsreglum um störf valnefnda deilda og fræðasviða við Háskólann á Akureyri þar sem jafnframt er kveðið á um málsmeðferð við ákvörðun um ráðningu.
 

9. gr. Hæfismat forseta fræðasviða, gestaprófessora og annarra samstarfsaðila

Dómnefnd skal meta hæfi umsækjenda um stöðu forseta fræðasviðs með líkum hætti og hæfi umsækjenda um stöður háskólakennara er metið, en þó skal einnig sérstaklega litið til starfsferils, starfsreynslu, stjórnunarreynslu og menntunar umsækjenda m.t.t. eðlis starfsins. Umsækjendur um stöðu forseta fræðasviða skulu uppfylla almenn hæfisskilyrði sem háskólakennarar og það á vettvangi þeirra fræða sem annað hvort eru kennd á viðkomandi fræðasviði eða tengjast mjög náið helstu viðfangsefnum þess. Að öðru leyti er ráðning forseta fræðasviðs samkvæmt verklagsreglum um ráðningu forseta fræðasviðs við Háskólann á Akureyri.
 
Í samningum sem háskólinn gerir við rannsóknastofnanir er heimilt að kveða á um að starfsmenn samstarfsstofnana, sem hafa kennsluskyldu við skólann en gegna rannsóknaskyldu sinni við samstarfsstofnun, eigi rétt á, eða sé skylt, að dómnefnd meti hæfi þeirra til að gegna þar lektors-, dósents- eða prófessorsstöðu.
 
Sá er hlýtur hæfisdóm samkvæmt framangreindri málsgrein skal njóta sambærilegra réttinda og gegna sambærilegum skyldum og lektorar, dósentar og prófessorar eftir því sem við á þótt ráðning sé við aðra stofnun, enda sé slíkt í samræmi við lög, reglur og kjarasamninga er gilda fyrir samstarfsstofnunina. Starfsfólk samstarfsstofnana, sem hefur kennsluskyldu við háskólann og hefur hlotið hæfisdóm, getur sótt um framgang í samræmi við reglur háskólans.
 
Gesta- og afleysingakennarar sem starfa við Háskólann á Akureyri um lengri eða skemmri tíma kunna, af faglegum og fjárhagslegum ástæðum, að þurfa að öðlast hlutgengi innan stöðu- og starfsheitakerfis háskólakennara. Í slíkum tilfellum er forseta fræðasviðs eða rektor heimilt að fela formanni dómnefndar að ákvarða hvaða starfsheiti viðkomandi gæti hlotið ef um hefðbundið dómnefndarmál væri að ræða. Ekki er gert ráð fyrir að öll dómnefndin komi að slíkum málum, né er gert ráð fyrir að ráðgjafi sé ráðinn til að fara yfir gögn viðkomandi.
 
Háskólaráði er heimilt að útnefna heiðursprófessora við Háskólann á Akureyri samkvæmt tillögu deildarfundar. Heiðursprófessorar skulu vera þekktir, viðurkenndir sérfræðingar með framúrskarandi starfsferil á tilteknu sviði samfélagsins. Þeir skulu uppfylla almenn skilyrði sem háskólakennarar að mati formanns dómnefndar og sinna stundakennslu við viðkomandi deild. Réttindi og skyldur akademískra prófessora eiga ekki við um heiðursprófessora.
 

10. gr. Gildistaka 

Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði 22. júní 2023, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, einkum 3., 15., 16. og 17. gr. laganna, laga nr. 63/2006 um háskóla, einkum 17. og 18. gr. og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022. Reglur þessar öðlast þegar gildi og samtímis falla úr gildi reglur nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.
 
Háskólanum á Akureyri, 22. júní 2023.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.