Aldrei fleiri erlendir stúdentar tekið þátt í Nýnemadögum

Ánægja með hlýjar móttökur og dagskrá Miðstöðvar alþjóðasamskipta og SHA
Aldrei fleiri erlendir stúdentar tekið þátt í Nýnemadögum

Aldrei hafa fleiri erlendir stúdentar tekið þátt í Nýnemadögum og alls mættu 65 erlendir stúdentar á móttökuna. Þetta misserið stunda stúdentar frá 12 löndum skiptinám við HA og er um að ræða einn stærsta hóp skiptinema frá upphafi. Þá hafa erlendir stúdentar aldrei verið fleiri og koma þeir frá 21 þjóðlandi.

Sigrid Skov Fleischer er ein þeirra sem stunda skiptinám á núverandi misseri. „Ég er frá Danmörku og ég valdi Háskólann á Akureyri vegna þess að ég elska Ísland. Ég hef komið hingað nokkrum sinnum núna, en aldrei á Norðurland og þess vegna valdi ég HA en einnig vegna þeirrar staðreyndar að hinir háskólarnir á Íslandi voru ekki með íslensku sem erlent tungumál. Mig langaði virkilega að læra íslensku því mig langar að fara á Hóla síðar vegna hestafræðinnar. Þá hef ég einnig lært að Akureyri sé borg sem er næstum kolefnishlutlaus og ég var mjög spennt fyrir því,“ segir Sigrid.

Miðstöð alþjóðasamskipta sér um skipulagningu og undirbúning fyrir móttöku erlendra skiptinema og heldur sérstakan nýnemadag á ensku fyrir nýja erlenda stúdenta við HA. „Stúdentar fá kynningu á stoðþjónustu háskólans og er í rauninni byggð upp með sambærilegum hætti og Nýnemi 101 sem er dagskrárliður námssamfélagsins við HA á Nýnemadögum. Kynningarnar eru þó örlítið ítarlegri og við leggjum einnig sérstaka áherslu á að öll séu komin inn í náms- og kennslukerfi HA og að stúdentarnir viti hvar sé hægt að nálgast allar upplýsingar á ensku sem tengjast námi og þjónustu í HA. Dagurinn endar svo á grilli hjá SHA í hádeginu, hringingu Íslandsklukkunnar svo og ratleik og annarri skemmtun á vegum SHA,“ segir Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta.

Sigrid segist einnig sérstaklega ánægð með dagskrána sem Miðstöð alþjóðasamskipta skipulagði fyrir erlenda stúdenta. „Það var ótrúlega vel tekið á móti okkur og ég elskaði kraftinn frá Hildi, Rúnari og stúdentafélaginu. Mér fannst einnig sérstaklega skemmtilegt að það væri verið að spila danska tónlist í gleðinni hjá SHA, Nick & Day og Medina, það kom mér skemmtilega á óvart og ég elskaði það,“ segir Sigrid sem er heilt yfir ánægð eftir fyrstu dagana í háskólanum. Hún vonast til að eignast góða vini, þroskast og læra á dvöl sinni á Akureyri.