Erlendir gestir frá þrettán háskólum og tíu löndum sóttu HA heim

Miðstöð alþjóðasamskipta stóð fyrir starfsþróunarviku fyrir erlenda samstarfsskóla
Erlendir gestir frá þrettán háskólum og tíu löndum sóttu HA heim

Vikuna 6. til 10. maí stóð Miðstöð alþjóðasamskipta fyrir starfsþróunarviku fyrir erlenda samstarfsskóla. Markmið og tilgangur vikunnar var að bjóða starfsfólki við erlenda samstarfsskóla HA möguleika á að koma í skipulagða starfsmannaheimsókn til að kynna sér starfsemi HA. Árum saman hefur Miðstöð alþjóðasamskipta við HA tekið á móti erlendum gestum og sniðið dagskrá eftir þeirra þörfum og tímasetningum. Slíkar heimsóknir hafa gefist vel en oft má gera betur og var skipulag þessarar heimsóknarviku einmitt liður í því.

Mikilvægt að spegla störf og verkefni við aðra í sambærilegum störfum

Þetta er því í fyrsta skipti sem Miðstöð alþjóðasamskipta auglýsir slíka heimsóknarviku með opnu „kalli“ og fékk háskólinn yfir þrjátíu umsóknir en á endanum komu 26 gestir. Dagskráin innihélt fjölbreytt erindi frá ýmsum einingum HA, s.s. gæðamál, kynningarmál, alþjóðamál, KHA- sveigjanlegt nám, jafnréttismál, íslensku og menningu. „Við þökkum okkar fólki sem tók þátt kærlega fyrir þeirra innlegg inn í dagskrána. Þá fengum við einnig sérfræðing frá RANNÍS til að ræða um inngildingu og jafnréttismál en jafnframt fengu þátttakendur að kynna sína stofnun og land,“ segir Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta. Erlendu gestirnir komu frá 13 háskólum og 10 löndum, Kanada, Lettlandi, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Þýskalandi, Tékklandi, Eistlandi, Noregi og Frakklandi.


Finnur Friðriksson, dósent við Kennaradeild var einn þeirra sem flutti erindi

Í lok vikunnar var vinnustofa með öllum þátttakendum þar sem rýnt var í þá hluti sem höfðu gengið vel og tillögur til úrbóta ásamt því að ræða hvernig slík starfsþróunarferð væri metin af þeirra stofnun og í þeirra starfi. „Þar stóð upp úr mikilvægi þess að geta tekið fundi og samtöl (e. job shadowing) með kollegum á þeirra starfssviði, umræða um inngildingu í starfi háskóla og í samfélaginu auk fjarkennslumála,“ segir Rúnar.

Þá brugðu Rúnar og Hildur Friðriksdóttir, verkefnastjóri og alþjóðafulltrúi, sér í leiðsögumannahlutverk og fóru með gestina í göngu um Akureyri auk þess að fara í dagsferð til Mývatnssveitar. Allar líkur eru á að sambærileg heimsóknarvika verði haldin að ári. „Vika sem þessi styrkir alþjóðasamstarf HA og hvetur vonandi okkar starfsfólk enn frekar til þátttöku í Erasmus+ starfsmannaskiptum,“ segir Rúnar að lokum.