Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA nýr forseti samstarfsnets háskóla smáríkja

Ársfundur samstarfsnetsins fór fram í Liechtenstein
Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA nýr forseti samstarfsnets háskóla smáríkja

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta sóttu ársfund NUSCT (Network of Universities of Small Countries and Territories) sem haldinn var í Háskólanum í Liechtenstein 10. maí síðastliðinn. Háskólinn á Akureyri gerðist aðili að NUSCT netinu árið 2021 en markmið samstarfsnetsins er meðal annars stúdenta- og starfsmannaskipti, samstarf í gæðamálum og að ræða stefnur og strauma í háskólamálum. Stúdentaskipti hafa þegar farið fram innan netsins auk vinnu í tengslum við gæðamál og kennslufræði. Á þessum ársfundi var sérstök umræða um gervigreind og áhrif þess á starfsemi háskóla auk umræðu um European University Alliances, Green campuses, sameiginlegar ráðstefnur og fleira.

Í lok ársfundarins tók Eyjólfur við sem forseti samstarfsnetsins til næsta árs af fráfarandi forseta netsins Miquel Nicolau sem er rektor háskólans í Andorra. „NUSCT samstarfsnet háskóla smáríkja er vettvangur sem passar vel til samstarfs fyrir HA þar sem skólar geta borið saman bækur sínar í ýmsum málum sem koma að stjórnun, rekstri og stefnumótun minni háskóla. HA sér sérstaklega mikla möguleika á að tryggja áframhaldandi gott samstarf við Grænland og Færeyjar með þátttöku sinni í samstarfsnetinu,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.