Fræðsludagur í Háskólanum á Akureyri

Jafnréttisfulltrúar frá öllum háskólum landsins komu saman og fræddust um fjölbreytt jafnréttismál
Fræðsludagur í Háskólanum á Akureyri

Föstudaginn 18. nóvember var fræðsludagur í Háskólanum á Akureyri þar sem jafnréttisfulltrúar frá öllum háskólum landsins komu saman.

Dagurinn hófst með morgunkaffi hjá Jafnréttisstofu þar sem Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri, tók á móti hópnum ásamt starfsfólki stofnunarinnar. Þar fékk hópurinn fræðslu um helsta hlutverki Jafnréttisstofu. Í kjölfarið kom Eva María Ingvadóttir, ráðgjafi hjá Alþjóðastofu, og hélt erindi um fjölbreytt starf Alþjóðastofu sem veitir ókeypis upplýsingaþjónustu og ráðgjöf fyrir innflytjendur.

Guðmundur Ævar Oddsson, dósent í félagsfræði, hélt svo erindi um stéttaskiptingu á Íslandi. Eftir hádegisverð kom Karen Birna Þorvaldsdóttir, sem á dögunum varð fyrsti doktorsneminn til að útskrifast frá HA, og kynnti doktorsritgerð sína Að skilja og mæla hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall: Þróun á mælitæki með blönduðum aðferðum.

Deginum lauk svo með umræðum um komandi jafnréttisdaga en þeir verða haldnir fyrstu vikuna í febrúar. Öll nutu dagsins við að fræðast um fjölbreytt jafnréttismál.

Starfsfólk í samráðsvettvangi jafnréttisfulltrúa háskólanna hittist á vinnufundum tvisvar á ári og á fræðslufundi einu sinni á ári, en samstarfið hófst árið 2015. Fundað er til skiptis í háskólunum sjö.