Fréttir af IRIS upplýsingakerfi um rannsóknir

IRIS upplýsingakerfi um rannsóknir er nú aðgengilegt rannsakendum og almenningi
Fréttir af IRIS upplýsingakerfi um rannsóknir

IRIS upplýsingakerfi opnaði um miðjan júní síðastliðinn og er nú aðgengilegt rannsakendum sem og almenningi.  

IRIS er upplýsingakerfi um rannsóknir á Íslandi. Kerfið safnar upplýsingum um rannsóknarverkefni og styrki sem og um allar rannsóknarafurðir rannsakenda við háskóla og rannsóknarstofnanir á Íslandi. IRIS veitir möguleikann á að sjá rannsóknir í samhengi við stofnanir og samstarf rannsakenda þeirra á milli.  

Virkir rannsakendur stofnana geta skráð sig inn til að skrá eigin upplýsingar og afurðir.  
Innskráning þjónar hagsmunum rannsakenda þannig að fólk getur haft áhrif á þá mynd sem kerfið gefur af rannsóknarstarfi þess.  

Rannsóknarþing Miðstöðvar doktorsnáms og vinnustofa í IRIS 

Rannsóknarþing Miðstöðvar doktorsnáms verður haldið þann 12. október næstkomandi frá kl. 8:30-12:00. Á þinginu heldur Sara Stef. Hildardóttir erindi um IRIS en hún er verkefnastjóri IRIS á landsvísu. Í framhaldinu eða fyrir hádegi þann 13. október er fyrirhugað að halda vinnustofu í IRIS. Upplýsingar um vinnustofuna og skráningu á hana verða sendar út tímanlega.  

Verkefnastjóri IRIS og umsjónarmaður innleiðingar í HA er Sigurbjörg Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri á Miðstöð doktorsnáms og rannsókna.