Grein úr doktorsnámi Eyrúnar Eyþórsdóttir fékk sérstaka viðurkenningu

Doktorsverkefni um íslensku brasilíufarana vekur áhuga
Grein úr doktorsnámi Eyrúnar Eyþórsdóttir fékk sérstaka viðurkenningu

Tímaritið Nordic Journal of Migration Research (NJMR) hefur vegna mikilla gæða greina í blaðinu ákveðið að veita tvö auka verðlaun fyrir framúrskarandi greinar. 

Greinin ber heitið „Becoming Nordic in Brazil: Whiteness and Icelandic Heritage in Brazilian Identity Making“ en hún var einnig var kynnt á ráðstefnunni General Assembly of the Nordic Migration í Kaupmannahöfn í ágúst. 

Í doktorsverkefni sínu fjallaði Eyrún um íslenska brasilíufara og afkomendur þeirra í samtímanum. „Árin 1863 og 1873 settust 37 Íslendingar að í Brasilíu. Vegna smæðar hópsins var hvorki íslenskri tungu né siðum viðhaldið og með tímanum urðu Íslendingarnir að Brasilíubúum. Meira en 100 árum síðar tók hópur afkomenda þessa fólks sig saman og stofnaði íslenskt átthagafélag og hóf að leggja áherslu á íslenskan uppruna sinn“, segir Eyrún um rannsóknina.  

Í rannsókninni skoðaði Eyrún meðal annars hvers vegna afkomendurnir hófu að leggja áherslu á íslenskan uppruna þegar hvorki tungumálinu né siðum var viðhaldið. Enn fremur varpaði hún ljósi á það hvað það þýðir í brasilískum samtíma að leggja slíka áherslu á íslenskan uppruna.