Hvaðan koma upplýsingarnar okkar?

Gordon Neil Ramsay, dósent við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, er meðhöfundur bókarinnar Seeing Red
Hvaðan koma upplýsingarnar okkar?

Gordon Neil Ramsay, dósent við Félagsvísindaeild, er meðfhöfundur bókarinnar Seeing Red. Bókin fjallar um hvernig misvísandi upplýsingar og áróður frá Rússlandi ná inn í vestræn fjölmiðlakerfi og hvernig innlendar popúlískar stjórnmálahreyfingar geta ýtt undir þessa þróun með því að fylgja eigin alræðisleikreglum.

Gömul skosk orð og heillandi menning

Gordon ólst upp í Glasgow í Skotlandi og lauk doktorsprófi í stjórnmálasamskiptum við Háskólann í Glasgow árið 2011. „Ég hef einnig búið í London og Ottawa í Kanada en ég vildi koma til Háskólans á Akureyri vegna skipulags námsins í fjölmiðlafræði þar sem mér finnst vera ágætt jafnvægi á milli blaðamennsku, fjölmiðla- og samskiptakenninga ásamt sögu og áhrifa pólitíkur á samskipti,“ segir Gordon aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að flytja til Akureyrar árið 2021 og hefja störf við skólann.

„Fyrir utan faglega lífið þá var þetta einstakt tækifæri til að kynnast Íslandi og skilja betur menningu og sögu lands sem ekki er í mikilli fjarlægð frá Skotlandi en er svo ólíkt á margan hátt. Það var líka tækifæri til að reyna að læra íslensku og þótt hæfni mín í tungumálinu sé enn vandræðalega lítil finnst mér það heillandi, þó sérstaklega þar sem gömul skosk orð og íslensk orð eru óbreytt frá fyrri tíð,“ bætir Gordon við.

Að skrifa bókina

Gordon segir að fyrri rannsóknir sínar hafi veitt honum innblástur til að skrifa bókina þar sem í þeim komu fram vísbendingar um hvernig rússneskur áróður og misvísandi upplýsingar voru að ryðja sér til rúms í vestrænum lýðræðisríkjum. „Rannsóknin sem bókin byggir á er fyrsta rannsóknin sem greinir rússneskan áróður í vestrænum fréttum og vísbendingarnar benda til þess að fjárhagslegt umhverfi fréttastofa um allan heim þýði að þær eru líklegri til að endurvinna áróður sem hefur verið hannaður til að vera metinn sem fréttnæmur og að Rússland hafi verið að nýta sér þessa aðstöðu.“

„Einnig höfum við rithöfundurinn, prófessorinn Sarah Oates, fylgst með rannsóknum hvors annars síðan hún leiðbeindi mér í doktorsverkefninu og það var greinilegt að áhugasvið okkar fer saman. Við ákváðum því að rannsaka hvernig rússneskar stefnumarkandi frásagnir voru í bandarískum fréttamiðlum og hlutverk innlendra stjórnmálaafla í að koma á framfæri andlýðræðislegum frásögnum sem samræmast þeim sem Rússar hafa haldið á lofti. Sarah er sérfræðingur í því hvernig rússneska ríkið myndar og dreifir stefnumarkandi frásögnum og notar upplýsingamiðla til að vinna að markmiðum sínum, meðal annars að koma á óstöðugleika í lýðræðisríkjum í Evrópu og Norður-Ameríku.“

Í bókinni er skoðað hvernig efnahagsþvinganir hafa veikt varðhundshlutverk bandarískra fjölmiðla - ferli sem á sér stað í öllum vestrænum fjölmiðlakerfum. Í bókinni er rannsakað hvað kemur til að hægrisinnaðir bandarískir stjórnmálamenn noti talsmenn Kremlar til að ráðast á innlendar stjórnmálastofnanir, hvernig virt hefðbundin dagblöð endurvinna rökstuðning Pútíns fyrir innrásinni í Úkraínu og hvernig Rússar geta réttlætt alþjóðlega baráttu sína fyrir því að gera lýðræðið tortryggilegt með því að byggja á orðum og gjörðum fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

„Þó að rannsóknin beinist að Bandaríkjunum, þá eiga niðurstöðurnar við um öll lýðræðisríki sem standa frammi fyrir miklum efnahagsþvingunum á hágæða blaðamennsku og þar sem fjölmiðlakerfið er opið fyrir innrás með háþróuðum og ákveðnum upplýsingaherferðum,“ segir Gordon að lokum.