Nýsköpun: Tækifæri og áskoranir þema Sjónaukans í ár

Sjónaukinn árleg ráðstefna Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs hefst á morgun
Nýsköpun: Tækifæri og áskoranir þema Sjónaukans í ár

Það má búast við lífi og fjöri í Háskólanum á Akureyri á morgun og miðvikudag þegar Sjónaukinn, árleg ráðstefna Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs HA fer fram. Ráðstefnan hefst klukkan 9 báða dagana og fer fram bæði á íslensku og ensku. Öll eru velkomin til þess að taka þátt á staðnum eða í streymi. Venju samkvæmt er dagskráin metnaðarfull og fjölbreytt með fjölda málstofa auk pallborðsumræðna sem endurspegla þema ráðstefnunnar í ár sem er Nýsköpun: Tækifæri og áskoranir.

„Sjónaukinn var fyrst haldinn af þáverandi Heilbrigðisvísindasviði HA árið 2018 og hefur verið haldinn árlega síðan. Ráðstefnan er fyrir öll þau sem hafa áhuga á heilbrigðisvísindum í víðum skilningi og á því erindi við marga. Nýjung í ár eru pallborðsumræður sem fara fram á ensku þar sem bæði innlendir og erlendir aðilar koma saman til að ræða nýsköpun“ segir Sonja Stelly Gústafsdóttir, formaður Sjónaukanefndarinnar í ár.

Aðalfyrirlesararnir koma úr ólíkum áttum og ættu að gefa þátttakendum innsýn í fjölbreyttan heim nýsköpunar. Þau eru:

  • Dr. Kjartan Sigurðsson, lektor við HA
  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis
  • Bergljót Borg, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri Höfuðborgardeildar Rauða krossins
  • Dr. Gojiro Nakagami, prófessor við UTokyo
  • Dr. Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við HA
  • Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri Hátinds 60+

Einnig munu Arna Sól Mánadóttir, Hrafnhildur Ósk Halldórsdóttir og Thelma Dögg Grétarsdóttir, BS í iðjuþjálfun, segja frá nýsköpunarverkefni sem varð til upp úr námsverkefni í skólanum og felst í að þróa lausn til að fyrirbyggja handar- og handleggstitring við vinnu í stóriðju.

Fjölbreyttar málstofur

Auk erinda aðalfyrirlesara og pallborðsumræðna fara fram fjölbreyttar málstofur. Þemu málstofanna eru meðal annars: Hugur og heilsa, Langvinn veikindi og endurhæfing, Heilsa Íslendinga, Velferðartækni, Heilsa á ólíkum æviskeiðum, Líðan í starfi og Stjórnun. Stór hluti af erindum á ráðstefnunni eru kynningar nema, sem eru að ljúka meistaranámi í heilbrigðisvísindum, á rannsóknarverkefnum sínum. Þar má nefna að Vera Sif Rúnarsdóttir mun kynna niðurstöður rannsóknar á tengslum áfalla í æsku við almennt heilsufar á fullorðinsárum og Helena Halldórsdóttir kynnir lífssögurannsókn á áhrifum eineltis á vinnustað.

Hvort sem þú hyggst taka þátt í Sjónaukanum á staðnum eða í streymi er mikilvægt að þú skráir þátttöku þína. Hér getur þú nálgast ítarlegri dagskrá og skráningu.