Sjávarútvegsfræðingar frá HA í fararbroddi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2022

Starfsfólk og stúdentar Auðlindadeildar sóttu ráðstefnuna
Sjávarútvegsfræðingar frá HA í fararbroddi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2022

Fríður hópur starfsfólks og stúdenta Auðlindadeildar Háskólans á Akureyri sótti Sjávarútvegsráðstefnuna 2022 sem fram fór í Hörpu dagana 10. og 11. nóvember. Þau stóðu vaktina á bás háskólans og tóku virkan þátt í ráðstefnunni. Þá voru brautskráðir sjávarútvegsfræðingar frá HA einnig áberandi.

Daga úr plastmengun í sjóð með lífplasti

Sean Michael Scully, aðjúnkt við Auðlindadeild og stofnandi Hemp Pack, flutti erindi á málstofunni Líftækni og nýsköpun og fjallaði um fyrirtækið Hemp Pack sem hefur það að markmiði að framleiða lífplast úr iðnaðarhampi með örverum. Ætlunin er að nota lífplastið til fjölbreyttrar vöruþróunar, allt frá einnota glösum til gerviútlima. „Við viljum þróa efnivið (plastið) í sölu til aðila sem framleiða vörur úr plasti og hafa hverfandi áhrif á umhverfið sé þeim ekki skilað í endurvinnslu. Nýsköpunin er mjög lifandi á þessu sviði. Mörg vandamál fylgja plasti en það er líka gott efni, ódýrt í framleiðslu og framboð svo mikið að auðvelt er að kaupa það. Það sem vantar inn í lífplastiðnaðinn er að koma gæðunum og verðinu á sama stað eða nær þessu hefðbundna plasti. Þetta er eitthvað sem þarfnast vinnu og við stefnum þangað,“ segir Robert Francis, framkvæmdastjóri Hemp Pack. Í teyminu á bak við Hemp Pack eru auk Roberts og Sean, Davíð Guðmundsson sem sér um viðskiptaþróun. Fyrirtækið var í öðru sæti í Gullegginu, frumkvöðlakeppni Icelandic Startup árið 2020.

Mikilvægt að sjá fjölbreytnina, nýsköpunina og efla tengslanetið

Hermann Biering Ottósson, nemandi á lokaári í viðskipta- og sjávarútvegsfræði var mjög ánægður með ráðstefnuna: „Fyrst og fremst var áhugavert að fylgjast með öllum málstofunum og því þar kom fram. Þá var gaman að sjá hversu fjölbreyttur hópur fólks tengist sjávarútveginum á einn eða annan hátt. Á ráðstefnunni kynnast stúdentar fólki í greininni og mögulegum atvinnurekendum í framtíðinni. Auk þess hafa atvinnurekendur leitað til stúdenta á ráðstefnunni og orðað samstarf við vinnslu lokaverkefna.“

Hermann segir þó að sprotafyrirtækið SideWind hafi staðið upp úr: „Þeir hyggjast framleiða rafmagn á hafi úti með opnum gámi. Það á að geta framleitt 5-20% rafmagns sem skip nota. SideWind hlaut hvatningarverðlaun ráðstefnunnar fyrir þetta verkefni og það er frábært að fá innblástur þegar kemur að nýsköpun á vettvangi sem þessum,“ segir Hermann.

 „Sjávarútvegurinn ekki bara slor og bras“ 

Herdís Hulda Guðmanssdóttir, verkefnastjóri við Auðlindadeild, fannst hátæknin og þróunin sem er í gangi áhugaverð: „Það er alltaf verið að impra á fullvinnslu, þ.e. að nýta allan fiskinn. Þar kemur líftæknin svo sterk inn þar sem tengsl hennar við sjávarútveg eru mikil. Einnig hvernig nýta megi hafið í kringum landið betur til dæmis með því að nota æti og annað til að byggja upp skeljarækt.“

Sjávarútvegsfræðingar frá HA í fararbroddi

„Sjávarútvegsráðstefnan gefur stúdentum okkar afar gott tækifæri til tengslamyndunar auk þess sem málstofurnar ýta undir þekkingu þeirra og forvitni um möguleika að námi loknu. Konur í sjávarútvegi var rauði þráðurinn í ráðstefnunni í ár og það er ekki laust við að maður verði stoltur þegar maður sér fyrrum nemendur sína blómstra. Sem dæmi þá voru þær Sunneva Ósk Guðmundsdóttir, gæðastjóri Samherja og Fanney Björk Friðriksdóttir, gæðastjóri Brim í farabroddi í fyrirlestrum um menntun í sjávarútvegi en þær eru báðar útskrifaðir sjávarútvegsfræðingar frá okkur, “ segir Hreiðar Þór Valtýsson, deildarforseti Auðlindadeildar að lokum.