Stemmning smakkkvölds Stafnbúa stórkostleg - hvað eru mörg S í því?

Smakkkvöld Stafnbúa, sem haldið var fimmutdaginn 7.mars, er árlegur viðburður þar sem nemendur félagsins taka sig saman og ná sér í fiskafurð sem þeir svo framreiða fyrir gesti.
Stemmning smakkkvölds Stafnbúa stórkostleg - hvað eru mörg S í því?

„ Við höfum verið sérstaklega heppin í gegnum tíðina með styrktaraðila og aðstoð við að koma þessu kvöldi á laggirnar. Í ár stóðu Samherji, Kaldi bruggsmiðja og Síldarvinnslan þétt við bakið á okkur og gerði þetta að möguleika. Þá erum við einnig með veglegt happdrætti sem gestir bíða jafnan með óþreyju. Það vantar svo ekki sköpunargáfuna í líftækni- og sjávarútvegsfræðinemendur þar sem gæðin og fjölbreytnin á réttum kvöldsins alveg hreint framúrskarandi í ár.” segir Fanney Gunnarsdóttir, fráfarandi forseti Stafnbúa.


Verið að sækja hráefnið í réttina fyrir smakkkvöldið.

Stúdentafélögin eru öflugur félagsskapur nemenda og sjá má að þau tengja við það nám sem þau stunda. Uppákomur líkt og smakkkvöldið eru góður vitnisburður þess. Það tekur mikinn tíma og skipulag af hálfu allra nemenda félagsins að koma slíku kvöldi vel frá sér og að leiða slíka vinnu sem forseti, ásamt öðru félagslífi félagsins, er kröfuhart embætti. Aðspurð hvað fái hana til að taka slíkt embætti að sér segir Fanney, „ mér finnst þessi viðburður í raun algjörlega skila öllum mínum markmiðum sem forseti félagsins, þetta er frábær skemmtun, hópurinn þjappast saman og Stafnbúahjörtun stækka.“


Stemmningin í eldhúsinu var stórkostleg.

„Það sem var svo brilliant í ár var sennilega mesta skyndiákvörðun kvöldsins og endurspeglar í raun hvað þessi hópur er geggjaður og til í að elta mig í vitleysunni. Þegar það var sennilega bara hálftími í setningu kvöldsins rauk ég inn í eldhús þar sem öll stóðu sveitt við að leggja lokahönd á réttina sína og lagði til að við opnuðum kvöldið með að ganga inn og taka hópsöng. Það var ekki að spyrja að því! Öll stukku til og hentu frá sér sleifum og pottum og tóku lagið.” segir Fanney að lokum um hvað hafi verið skemmtilegast við kvöldið í ár.