Stúdentar allra háskóla ræða stóru málin

Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta — „Tilgangur háskólamenntunar“
Stúdentar allra háskóla ræða stóru málin

Það var kraftur í stúdentum þegar Landsþing LÍS - Landssamtaka íslenskra stúdenta fór fram í Landbúnaðarháskóla Íslands dagana 7. til 10. mars. Á Landsþingi LÍS koma saman um 50 stúdentar frá aðildarfélögum LÍS úr öllum háskólum landsins, sem og fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþingið er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi og þar gefst færi á að skiptast á skoðunum, rökræða og fá innsýn í baráttumál stúdenta á öðrum sviðum.

Þingið var vel sótt af stúdentum úr hagsmunasamtökum stúdenta á Íslandi og mikilvæg málefni voru rædd. Þingið skiptist í fyrirlestra, vinnustofur og laga- og stefnubreytingar. Yfirskrift þingsins í ár var: „Tilgangur háskólamenntunar“ og voru fjögur erindi sem nálguðust þemað frá ólíkum áttum. Erindin fluttu Skúli Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskólans á Hólum, Hulda Birna K. Baldursdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum iðnaðarins, Einar Hreinsson, konrektor MR og Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs RANNÍS. Í kjölfarið tóku þingfulltrúar þátt í umræðuhópum um efnið.

Þá voru ný fjölskyldustefna, lagabreytingar og endurskoðun á gæða- og jafnréttismálum LÍS lögð fyrir þingið og ályktanir teknar fyrir. Samþykkt þingskjöl verða svo birt á næstu dögum á vefsíðu LÍS.

Fulltrúar SHA öflugir á þinginu

Fulltrúar SHA voru sjö talsins: Cristina Cretu, stúdent við Lagadeild, Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, stúdent við Kennaradeild, Erla Salome Ólafsdóttir, stúdent við Hjúkrunarfræðideild, Hörður Hlífarsson, stúdent við Viðskiptadeild, Silja Rún Friðriksdóttir, stúdent við Sálfræðideild og Sólveig Birna Elísabetardóttir, stúdent við Kennaradeild. Þau stóðu sig öll með prýði og tóku virkan þátt í umræðum á þinginu og komu rödd stúdenta HA til skila.

„SHA hefur lagt ríka áherslu á virka þátttöku í LÍS síðustu ár enda er vettvangur samtakanna gríðarlega mikilvægur fyrir stúdenta. Á þessum vettvangi mætast ólíkir einstaklingar frá ólíkum háskólum, en í grunninn erum við þó öll að berjast fyrir því sama og það er mikilvægt að kortleggja hvað við eigum sameiginlegt og hvernig við getum unnið að því saman, í krafti fjöldans og sameiningar, að bæta aðstæður stúdenta. Ég er virkilega stolt af þátttöku fulltrúa HA á þinginu í ár, þau mættu vel undirbúin til leiks og voru óhrædd að taka til máls. Erla Salome og Lilja Margrét lögðu meðal annars fyrir þingið ályktanir um fjöldatakmarkanir í iðjuþjálfun og vanfjármögnun,“ segir Sólveig Birna, forseti SHA.

Þá segir hún einnig áhugavert að bera saman baráttumál stúdenta annarra háskóla við Háskólann á Akureyri. „Við erum ótrúlega heppin í HA, stúdentar geta fengið sér að borða á hagstæðu verði í háskólanum, fá fríar tíðarvörur, frítt í ræktina, frían aðgang að rafbíl á vegum HA og ég tala nú ekki um frábæru stoðþjónustuna sem við stúdentar höfum. Þetta er ekki sjálfsagt og skiptir gríðarlega miklu máli. Stoðþjónustan heldur utan um þá stúdenta sem þurfa og styður þá. Þá er einnig mjög gott samstarf á milli kjörinna fulltrúa stúdenta og stjórnenda, sem er ljóst að er ekki sjálfsagt en er dýrmætt og skiptir miklu máli. Það verður til þess að verkefnin eru frekar unnin í samvinnu og samráði við stúdenta,“ segir Sólveig Birna.

Stúdent frá HA kjörin í framkvæmdastjórn LÍS

Ásamt fulltrúum SHA var Lilja Margrét Óskarsdóttir, stúdent við Iðjuþjálfunarfræðideild, þátttakandi á þinginu fyrir hönd framkvæmdastjórnar LÍS og hún hefur sinnt stöðu gæðastjóra LÍS síðastliðið starfsár með miklum dugnaði. Lilja Margrét bauð sig aftur fram í þá stöðu á þinginu og hlaut kjör. Með því mun hún halda áfram að vinna að gæðamálum háskólanna og sjá til þess að hagsmunir stúdenta verði hafðir í huga þegar kemur að gæðamálum. Það er virkilega ánægjulegt að stúdent við HA hafi hlotið kjör í framkvæmdastjórn LÍS en samhliða starfi gæðastjóra mun Lilja Margrét sitja áfram sem fulltrúi stúdenta í Gæðaráði HA.

Áhugasöm geta nálgast frekari upplýsingar og ljósmyndir frá þinginu hér.