Ugla sat á kvisti – samstarf, samvinna og starfsemi

Verkefnastjórn samstarfsnets opinberu háskólanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins sóttu HA heim
Ugla sat á kvisti – samstarf, samvinna og starfsemi

Verkefnastjórn Samstarfsnets opinberu háskólanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins kom saman í vikunni í húsakynnum Háskólans á Akureyri. Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor HA, tók á móti félögum sínum úr nefndunum tveimur og kynnti áherslur í starfi Háskólans á Akureyri. Þá var farið í skoðunarferð um háskólasvæðið , lögð áhersla á að sýna breytingar á kennslurýmum með tilkomu sveigjanlegs náms og farið yfir þær áskoranir sem námsfyrirkomulaginu fylgja og enn fremur þau tækifæri sem HA hefur gripið.

Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður KHA kynnir hér kennslurými sem styður við virkt nám

Samstarf opinberu háskólanna hófst með formlegum hætti árið 2010 og er samstarfið margþætt. Samstarfsnetinu voru sett þau markmið frá upphafi að efla háskólana, kennslu og rannsóknir þeirra, auka hagkvæmni í rekstri og tryggja háskólastarfsemi víða á landinu. Uglan er til að mynda sameiginlegt kerfi fyrir stúdenta og starfsfólk háskólanna og eiga skólarnir í fjölbreyttu samstarfi á sviði kennslu-, gæða- og upplýsingatæknimála. Þeir eiga einnig í samstarfi um akademískt mat, standa saman að stúdentakönnunum sem tengjast gæðastarfi háskólanna, standa að Kennsluakademíu opinberu háskólanna, deila starfi persónuverndarfulltrúa, námsráðgjafa og þá eiga stúdentar skólanna kost að gestanámi með því að taka námskeið við aðra opinbera háskóla. Á fundi sínum ræddi nefndin meðal annars Samstarf háskóla og sameiginlega innritunargátt.

Þá fundaði Samstarfsnefnd háskólastigsins og auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur beggja nefnda. Samstarfsnefnd háskólastigsins er vettvangur samráðs og samstarfs allra háskóla á Íslandi um málefni þeirra svo sem gæðamál, gagnkvæma viðurkenningu náms, bókasafnsmál, inntökuskilyrði í háskóla og fleira. Nefndin fjallar um málefni er varða starfsemi og hagsmuni háskólanna. Hún veitir umsagnir um mál sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráherra, eða einstakir háskólar, vísa til hennar. Enn fremur tilnefnir samstarfsnefndin fulltrúa í ýmsar nefndir og ráð. Nefndina skipa rektorar viðurkenndra háskóla hér á landi.