Útskrift 25. árgangs nemenda Sjávarútvegsskóla GRÓ fór fram miðvikudaginn 15. maí í hátíðarsal Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði. Í ár voru 10 af þessum nemendum við Háskólann á Akureyri frá janúar til maí. Starfsfólk HA, Fiskistofu og Háskóla Íslands kenndu þeim og leiðbeindu í lokaverkefnum.
Meðal þess sem þau unnu að eru rannsóknir á þaraeldi á Kyrrahafseyjum, stjórnun veiða á kolkrabba í Austur-Afríku, áskoranir í fiskveiðum í Austur-Afríku og nýjar lausnir við fiskveiðistjórnun í Viktoríuvatni. Nemendurnir sem voru á Akureyri komu frá Sri Lanka, Líberíu, Kenía, Papúa, Malawi, Solomon-eyjum, Sierra Leone, Tansaníu og Fiji, 3 konur og 7 karlar.
Námið á Akureyri byggir mikið á upplifun, sjávartengd söfn voru heimsótt, fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki voru heimsótt og farið var í sjóferð til að veiða fisk sem þau svo rannsökuðu, unnu, elduðu og borðuðu sjálf. „Ein meginástæða þess að GRÓ verkefnið gengur svona vel er að sjávarútvegstengd fyrirtæki á Norðurlandi hafa ætíð opnað dyr sínar fyrir GRÓ nemendum og kynnt þeim starfsemi sína. Við þökkum þeim kærlega fyrir gestrisnina og samstarfið,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson deildarforseti Auðlindadeildar.
Eftirfarandi fyrirtæki voru heimsótt meðan á skólanum stóð: Samherji, Ektafiskur, Hnýfill, Darri, Gjögur, Vélfag, DNG, Sæplast, Fiskmarkaður Norðurlands, Ísfélagið Siglufirði, Norlandia, Fiskeldið Haukamýri og GPG.