Jafnréttisdagar: Opnun

Hefbundin karlastörf, móðgaðir karlar og karlar í hjúkrun.

Jafnréttisdagar verða frá 1. október til 5. október og er samstarfsverkefni allra háskóla í landinu. Hugmyndin með Jafnréttisdögum er að þeir hjálpi til við að skapa umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnileg innan háskólana sem utan.

Fræðileg umfjöllun og fjölbreyttir viðburðir einkenna Jafnréttisdaga háskólana en dagskrár þeirra og viðburði má til finna á facebook.com/jafnrettisdagar. Opnun jafnréttisdaga í Háskólanum á Akureyri verður mánudaginn 1. október:

Ávarp rektors

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, setur jafnréttisdaga.

Konur og hefðbundin karlastörf

Hildur Andrjesdóttir Alma Ágústsdóttir

Hildur Andrjesdóttir og Alma Ágústsdóttir munu fjalla um sína upplifun á muninum á því að starfa í hefðbundnum kvennageira og hefðbundnum karlageira. Í erindi sínu munu þær velta því upp hvers vegna konur leita síður í hefðbundin karlastörf.

Hildur er menntaður iðjuþjálfi og starfaði sem slík í fimm ár í grunnskóla en færði sig svo yfir í tölvunarfræði og hefur starfað sem forritari í þrjú ár.

Alma er tölvunarfræðingur sem hefur starfaði í heilbrigðisgeiranum í sjö ár og í fimm ár sem prófari.

Móðgaðir karlar og #metoo

Tryggvi Hallgrímsson

Síðasta ár hefur #metoo-hreyfingin skilað ótal sögum um áreitni og áreiti. Þó hefur hreyfingin ekki skilað sér í fjölda tilkynninga til Jafnréttisstofu, Vinnueftirlitsins eða stéttarfélaga.

Tryggvi Hallgrímsson, félagsfræðingur og sérfræðingur á Jafnréttisstofu, ræðir hvernig umræða og efndir geta farið saman við jafnréttisþátttöku karla til að sporna gegn bakslagi í jafnréttismálum.

Aukning karla í hjúkrun; til hvers (og hvernig)?

Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir Gísli Kort Kristófersson

Dr. Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, geðhjúkrunarfræðingur, dósent og sviðsforseti heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Dr. Gísli Kort Kristófersson, sérfræðingur í geðhjúkrun, dósent í geðhjúkrun og deildarformaður hjúkrunarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri.
Samkvæmt áætlun um jafna stöðu kynjanna við Háskólann á Akureyri skulu fræðasviðin, öll svið háskólaskrifstofu, skrifstofa rektors og undirstofnanir HA setja fram áætlun um það hvernig þau hyggjast vinna að því að ná auknu jafnvægi kynja á sínu sviði. Áætlunin skal taka til málefna starfsfólks og nemenda, auk uppbyggingar námsins. Aðgerðir og markmið skulu tímasett.

Frá stofnun hjúkrunarfræðideildar HA hefur hlutfall brautskráðra karlkyns hjúkrunarnema við HA verið 2,1 % sem er í takt við það hlutfall íslenskra hjúkrunarfræðinga sem eru karlkyns (2%). Á Ítalíu eru um 25% hjúkrunarfræðinga karlar og kringum 10 % á Norðurlöndum og Bandaríkjum. Eftir stendur að Ísland, sem trónir á toppnum í jafnréttismálum samkvæmt jafnréttisskýrslu alþjóða viðskiptaráðsins (World´s Economic Forum´s Gender Gap report), er langt á eftir löndum sem eru mun aftar á sama lista þegar kemur að þátttöku karla í hjúkrunarfræði. Þrátt fyrir ýmis átaksverkefni hefur ekki tekist að þoka hlutfalli karla í hjúkrun uppá við á Ísland síðustu áratugina.

Háskólinn á Akureyri vinnur nú að því sem hluta af samnorrænu verkefni að þróa leiðbeiningar um gagnreyndar aðferðir til auka hlut karla innan hjúkrunar sem og viðhalda þeim fjölda sem nú þegar hefur menntað sig til starfsins.

Nú hefur HA, útfrá styrk frá jafnréttissjóði Norrænu Ráðherranefndarinnar (NIKK), unnið í samvinnu við önnur Norðurlönd (Danmörk og Noreg) tillögur til að takast á við spurninguna, „hvernig fáum við stráka í hjúkrun, og af hverju skiptir það máli?“ HA hefur útfrá þessum tillögum lagt drög að sértækum aðgerðum til að auka aðgengi og minnka brottfall stráka í hjúkrunarfræðinámi.

Öll velkomin - AÐGANGUR ÓKEYPIS