Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri

Háskólinn

Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA) er sameiginlegur vettvangur starfsmanna SAk og HA til eflingar rannsókna í heilbrigðisvísindum.

Hlutverk HHA er meðal annars:

 • Að efla SAk sem rannsóknar- og kennslusjúkrahús
 • Að stuðla að aukinni rannsóknarsamvinnu
 • Að hafa samstarf um upplýsinga- og bókasafnsþjónustu
 • Að styrkja samstarf á sviði tölvu- og upplýsingatækniþjónustu
 • Að standa að sameiginlegum málþingum

LAUSAR STÖÐUR VIÐ HHA

Reglur og samningar um Heilbrigðisvísindastofnun HA

Reglur um akademísk hæfi og veitingu akademískra nafnbóta

HA og SAk hafa gert með sér samkomulag í tengslum við HHA þar sem starfsmönnum SAk gefst kostur á viðurkenningu á akademísku hæfi eða hljóta akademíska nafnbót.

Reglur um viðurkenningu HA á akademísku hæfi starfsmanna SAk og veitingu akademískrar nafnbótar við HHA nr. 287/2018

Reglur um Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri

HHA er vísindaleg rannsóknastofnun sem til var stofnað með rammasamningi um samstarf milli Sjúkrahússins á Akureyri og Háskólans á Akureyri. Með samninginum vilja SAk og HA efla kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum með því að auka samstarf og gera þessa þætti í starfi stofnananna sýnilegri.

Reglur um Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri nr. 202/2017, með breytingum

Rammasamningur um samstarf Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og Háskólans á Akureyri (HA)

Aðilar að þessum rammasamningi eru Sjúkrahúsið á Akureyri, kt. 580269-2229, Eyrarlandsvegi, 600 Akureyri, í samningi þessum nefnt SAk og Háskólinn á Akureyri, kt. 520687-1229, Sólborg, 600 Akureyri, í samningi þessum nefndur HA.

1 Tilgangur

SAk og HA vilja með samningi þessum styrkja samstarf stofnananna með því að efla samstarf um rannsóknir, símenntun og kennslu heilbrigðisstarfsmanna.

2 Stjórnun

2.1 Yfirstjórn

Yfirstjórn samstarfsins er í höndum stefnunefndar sem er skipuð þremur fulltrúum frá hvorum samningsaðila. Frá SAk sitja í nefndinni, forstjóri eða fulltrúi hans, framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga. Frá HA sitja í nefndinni, rektor eða fulltrúi hans, forseti heilbrigðisvísindasviðs og fulltrúi sem deildarfundur heilbrigðisvísindasviðs tilnefnir. Stofnanirnar skiptast á um formennsku í stefnunefndinni eitt ár í senn og skulu formannsskipti fara fram 1. september ár hvert.

Stefnunefnd fer með ákvörðunarvald í öllum málum sem samningur þessi fjallar um og hefur yfirumsjón með framgangi og þróun einstakra verkefna. Ef upp koma hugmyndir um ný samstarfsverkefni og/eða aukið samstarf skal fyrst leita til stefnunefndar en fulltrúar samningsaðila í henni koma málum síðan áfram innan sinnar stofnunar. Stefnunefndin vinnur samkvæmt gildandi starfsreglum stefnunefndar SAk og HA.

2.2 Stjórn einstakra verkefna

Stefnunefnd getur falið stjórn einstakra verkefna eða þátta í samstarfinu aðilum innan stofnananna.

3 Samstarfsverkefni

Verkefni sem samningsaðilar vinna nú þegar að og ætla að auka samvinnu um eru:

Að efla SAk sem rannsóknar- og kennslusjúkrahús
Að stuðla að aukinni rannsóknarsamvinnu
Að hafa samstarf um upplýsinga- og bókasafnsþjónustu
Að styrkja samstarf á sviði tölvu- og upplýsingatækniþjónustu
Að standa að sameiginlegum málþingum og/eða ráðstefnum

3.1 Sjúkrahúsið á Akureyri sem kennslusjúkrahús

SAk er kennslusjúkrahús skv. lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Um forsendur og framkvæmd einstakra þátta í samstarfi á þessu sviði er nánar fjallað í einstökum greinum samningsins.

3.1.1 Klínískt-/vettvangsnám heilbrigðisstétta
SAk lætur í té aðstöðu til klínísks-/vettvangsnáms í þeim greinum heilbrigðisvísinda sem á hverjum tíma eru kenndar við HA eftir nánara samkomulagi.

3.1.2 Endur- og símenntun
Stefnt skal að því að efla samstarf stofnananna um endur- og símenntun.

3.1.3 Þróun náms í heilbrigðisvísindum
Stuðla skal að þróun nýrra námsleiða á framhaldsstigi í heilbrigðisvísindum við HA. Menntun heilbrigðisstarfsfólks í þeim greinum sem mest þörf er á í dreifbýli hefur forgang í samræmi við stefnu háskólans. SAk mun verða bakhjarl HA í uppbyggingu framhaldsnáms við heilbrigðisvísindasvið varðandi kennslu og rannsóknir og HA mun leitast við að taka mið af þörfum þjónustusvæðis SAk fyrir sérþekkingu hverju sinni. Stofnanirnar vinna saman að uppbyggingu sérfræðimenntunar innan heilbrigðisvísinda.

3.2 Rannsóknir

3.2.1 Heilbrigðisvísindastofnun HA
Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA) ("Institute of Health Science Research, University of Akureyri") er sameiginlegur vettvangur starfsmanna SAk og HA til eflingar rannsókna í heilbrigðisvísindum. Einnig hefur HHA það hlutverk að bæta umhverfi fyrir rannsóknanám (meistara- og doktorsnám) við heilbrigðisvísindasvið HA. Stofnunin getur verið vettvangur rannsókna vísindamanna sem starfa utan SAk og HA enda séu rannsóknir þeirra vistaðar við stofnunina og í samstarfi við aðila innan hennar. Stjórn HHA er í höndum stefnunefndar og skipar hún forstöðumann hennar. Sérstakar reglur gilda um HHA sem háskólaráð HA samþykkir.

3.2.1.1 Akademískar nafnbætur
Starfsmenn SAk með aðalstarf á sjúkrahúsinu og sinna kennslu og rannsóknum eiga rétt á að sækja um mat á hæfi til að hljóta akademíska nafnbót við HHA í samræmi við gildandi reglur HA. Viðurkenning á akademísku hæfi veitir viðkomandi starfsmanni heimild til að bera þá akademísku nafnbót sem hann er metinn hæfur til í stöðu klínísks lektors, dósents eða prófessors. Í því felst einnig að starfsmaðurinn birtir verk sín sameiginlega í nafni SAk og heilbrigðisvísindasviðs HA. Til þess að formfesta þetta hlutverk gera nafnbótarhafi og HHA formlegan samning sín á milli um þátttöku í starfi sviðsins og það akademíska starf (réttindi og skyldur) sem nafnbótin veitir. Rektor veitir nafnbætur að fengnu áliti dómnefndar, nafnbót er veitt til 5 ára en fellur niður leggi starfsmaður niður störf við SAk.

3.2.1.2 Stöður til þriggja ára
Ákveðnum stöðum við SAk getur fylgt staða við HHA enda fari veiting hennar fram að undangengnu hæfismati samkvæmt gildandi reglum. Starfsmenn SAk sem uppfylla hæfisskilyrði um stöðu háskólakennara, sbr. lög um háskóla nr. 85/2008, á vettvangi fræða sem annað hvort eru kennd við heilbrigðisvísindasvið HA eða tengjast viðfangsefnum hennar, geta sótt um stöður við HHA. Stöðunum fylgir að lágmarki 20% vinnuskylda við heilbrigðisvísindasvið HA. Heilbrigðisvísindasviði er heimilt að semja við viðkomandi einstakling um skiptingu á hlutfalli kennslu og rannsókna. Stefnunefnd ákveður hversu margar stöður eru heimilar á hverjum tíma, en almennt er stefnt að því að hver sem áhuga hefur og uppfyllir skilyrðin eigi kost á stöðu samkvæmt þessu samkomulagi. Stöðurnar veitast til þriggja ára í senn. Rektor ræður í stöður við HHA að fengnu áliti dómnefndar, heilbrigðisvísindasviðs HA og stefnunefndar.

3.2.2 Afrakstur rannsókna við Heilbrigðisvísindastofnun
Rannsóknir við HHA teljast vistaðar við heilbrigðisvísindasvið HA. Birting vísindagreina eða annars afraksturs rannsóknanna, s.s. kynningar rannsóknaverkefna og útdrátta á ráðstefnum eða í fjölmiðlum, skal vera í nafni HA og SAk. HHA heldur árlega kynningu á rannsóknaverkefnum sem unnin eru við stofnunina.

3.2.3 Fjárframlög og styrkir
Starfsmönnum HHA með stöðu til þriggja ára er heimilt að sækja um styrki í rannsóknasjóð HA eftir reglum sem um hann gilda. Af styrkjum sem kunna að koma til vegna rannsókna við HHA er stefnunefnd heimilt að ákveða þjónustugjald (að hámarki 10%) sem skiptist milli HA og SAk, eftir nánara samkomulagi í stefnunefnd. Akademískri nafnbót fylgir ekki réttur til að sækja um fjárframlög úr rannsóknarsjóðum HA.

3.3 Upplýsinga- og bókasafnsþjónusta

Við SAk og HA eru starfrækt rannsókna- og sérfræðibókasöfn. Þau hafa með sér samráð og samstarf svo tryggt sé að hámarksnýting náist úr fjárveitingum, aðstöðu og safnkosti beggja. Bókasöfnin skulu leitast við að hafa samráð um aðföng tímarita bæði prentaðra og rafrænna og um aðgang að gagnasöfnum á sviði heilbrigðisvísinda og semja fyrirfram um kostnaðarskiptingu. Stefnt skal að því að skráningar og útlánakerfi bókasafnanna sé það sama og að starfsfólki beggja stofnananna sé tryggður gagnkvæmur réttur til þjónustu. Bókasöfnin hafa samstarf um notendafræðslu og námskeiðahald. Um greiðslu kostnaðar vegna slíkra námskeiða skal samið fyrirfram.

3.4 Tölvu- og upplýsingatækni

Tölvu- og upplýsingatæknideildir SAk og HA hafa samstarf tengt verkefnum er lúta að fjarfundum, fjarfræðslu og fjarþjónustu innan heilbrigðisgeirans.

3.5 Málþing og ráðstefnur

Samningsaðilar munu leitast við að halda sameiginleg málþing og ráðstefnur þar sem m.a. skulu tekin fyrir þau málefni/verkefni sem samningur þessi fjallar um, svo og fagleg málefni sem tengjast heilbrigðisþjónustu.

4 Ábyrgðarsvið

Hvor samningsaðili fyrir sig ber sjálfstæða ábyrgð á framkvæmd samningsins. Að því marki sem samið er um sameiginleg verkefni skal ábyrgðin vera sameiginleg.

5 Ráðning starfsmanna

Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að hvor samningsaðili ráði starfsmenn til starfa með hefðbundnum hætti. Þó er gert ráð fyrir að ráðning geti orðið sameiginleg á grundvelli samnings þessa og einstakra verkefna sem aðilar ráðast í og verður þá gerður sérsamningur þar að lútandi.

6 Húsnæðismál

Báðir samningsaðilar leggja til húsnæði sitt til sameiginlegra verkefna án sérstakrar greiðslu nema um það sé samið sérstaklega vegna eðlis einstakra verkefna.

7 Tæki og búnaður

Báðir samningsaðilar leggja til tæki og búnað í sinni eigu til sameiginlegra verkefna án sérstakrar greiðslu nema um það sé sérstaklega samið fyrirfram. Þannig er gagnkvæmur vilji til að samnýta tæki og búnað SAk og HA. Komi til kaupa á búnaði vegna einstakra verkefna skal við það miðað að sá aðili sem vistar tækin og notar þau í daglegum rekstri sínum eigi og greiði tækin. Sé um sameiginleg not að ræða skulu aðilar semja um fjármögnun, eignarhald og ábyrgð á rekstri tækjanna áður en til verkefnisins er stofnað.

8 Kostnaður

Að því marki sem ekki er um annað samið greiðir hvor aðili um sig sinn kostnað af framkvæmd samningsins eða framkvæmd einstakra verkefna. Samið skal fyrirfram um skiptingu kostnaðar vegna aðkeyptrar þjónustu eða annan sérstakan kostnað sem samningsaðilar þurfa að leggja í og telst ekki vera hluti af almennum daglegum rekstri samningsaðila.

Samningsaðilar eru sammála um að leggja mat á eðlilegan kostnað SAk vegna klínískrar kennslu nemenda í heilbrigðisvísindagreinum HA og annarrar akademískrar starfsemi, m.a. með samanburði við önnur háskóla- og kennslusjúkrahús.

9 Ýmis atriði

9.1 Gildistími - Uppsögn

Samningur þessi er ótímabundinn en hvor samningsaðili um sig hefur heimild til þess að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara miðað við áramót ár hvert.

9.2 Ágreiningsmál

Komi upp ágreiningur um túlkun á samningi þessum eða einstökum greinum hans eða ágreiningur um framkvæmd einstakra þátta eða verkefna skulu aðilar reyna sættir. Takist það ekki og teljist forsendur samningsins af þessum sökum hafa brostið verulega er samningsaðilum heimilt að rifta samningi. Reynist nauðsynlegt að reka mál vegna samningsins skal það rekið fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra.

9.3 Endurskoðun

Hvor samningsaðili um sig getur hvenær sem er á samningstímanum óskað eftir endurskoðun á samningi þessum eða einstökum ákvæðum hans. Stefnunefnd skal yfirfara samninginn á þriggja ára fresti og eftir atvikum gera tillögur um endurskoðun teljist þess þörf.

9.4 Tilvísun til lagaákvæða, undirritun o.fl.

Samningur þessi byggir á heimild í 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og á 21. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Fyrri rammasamningur um samstarf stofnananna frá desember 2012 fellur úr gildi við undirritun þessa samnings. Samning þennan sem gerður er í fjórum samhljóða eintökum undirrita fulltrúar samningsaðila í viðurvist tveggja vitundarvotta.

 

Akureyri, 10. maí 2017

F.h. Háskólans á Akureyri

Eyjólfur Guðmundsson rektor
Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir forseti heilbrigðisvísindasviðs

F.h. Sjúkrahússins á Akureyri

Bjarni S. Jónasson forstjóri
Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar
Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga

Stjórn

 • Dr. Brynjar Karlsson, forseti heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs HA, formaður stjórnar
 • Dr. Eva Charlotte Halapi, dósent, hjúkrunarfræðideild HA
 • Hulda Sigríður Ringsted, framkvæmdastjóri hjúkrunar, SAk
 • Dr. Laufey Hrólfsdóttir, forstöðumaður deildar mennta og vísinda, SAk og lektor
 • Dr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir, dósent, framhaldsnámsdeild HA
 • Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga, SAk

Varamenn:

 • Björn Gunnarsson, yfirlæknir SAk og dósent
 • Sólrún Óladóttir, lektor, iðjuþjálfunarfræðideild HA

Starfsmenn

 • Dr. Alexander Kristinn Smárason, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, prófessor
 • Dr. Björn Gunnarsson, svæfingalæknir, dósent
 • Dr. Laufey Hrólfsdóttir, forstöðumaður deildar mennta og vísinda, SAk, lektor
 • Dr. Þorvaldur Ingvarsson, bæklunarskurðlæknir, prófessor

Áslaug Lind Guðmundsdóttir, forstöðumaður HHA

Klínískir nafnbótarhafar

 • Dr. Guðjón Kristjánsson, meltingarfærasérfræðingur, klínískur dósent
 • Hildigunnur Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, klínískur lektor

 

Forsaga Heilbrigðisvísindastofnunar

Mánudaginn 7. október 2002 var undirritaður samstarfssamningur við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) þar sem FSA er skilgreint sem háskólasjúkrahús. Halldór Jónsson, forstjóri undirritaði samninginn fyrir hönd FSA og Þorsteinn Gunnarsson, rektor fyrir hönd Háskólans á Akureyri (HA).

Meðal þess sem fram kemur í samstarfssamningnum er að samningsaðilar eru sammála um að koma á fót rannsóknastofnun innan heilbrigðisdeildar HA. Stofnunin beri nafnið Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA).

Háskólaráð HA samþykkti reglur um HHA þann 20. júní 2003, reglur nr. 876/2003. Nýjar reglur voru settar um stofnunina þann 23. febrúar 2017. Samhliða því voru fyrri reglur felldar úr gildi ásamt því að rammasamningur um samstarfið var undirritaður.

Rannsóknir

Heilbrigðisstofnanir

Sjúkrahúsið er kennslusjúkrahús og þekkingarstofnun sem leggur metnað sinn í kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Sjúkrahúsið á Akureyri leggur áherslu á samvinnu við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.