30 brautskrást í dag

Stúdentar nýttu sér frest vegna heimsfaraldurs
30 brautskrást í dag

Brautskráning frá Háskólanum á Akureyri fer almennt fram í júní á ári hverju en þess utan stendur stúdentum til boða að brautskrást í febrúar eða október án hátíðar. Á vormisseri kom háskólinn til móts við stúdenta með því að veita aukið svigrúm á skilum á lokaverkefnum og/eða að þreyta próf í aukaprófatíð í ágúst. Var þetta gert vegna aðstæðna í samfélaginu með það að markmiði að minnka streitu og álag stúdenta. Fjöldi stúdenta nýtti sér þessi úrræði. Þeir stúdentar eru meðal þeirra 30 kandídata sem brautskrást frá HA í dag.

Breytingar á námsmati vormisseris voru staðfestar á fundi Háskólaráðs 30. apríl 2020.

Fundargerð háskólaráðs

Háskólaráð samþykkir eftirfarandi bókun vegna námsmats á vormisseri 2020:

 • Boðið verður upp á aukapróftímabil í ágúst, dagana 17. - 21. ágúst 2020.
 • Próftökugjald verður ekki innheimt fyrir próftöku á aukapróftímabili né lokaverkefni sem skilað er í ágúst 2020.
 • Skrásetningargjald verður ekki innheimt vegna próftöku á aukapróftímabili eða skilum lokaverkefna í ágúst 2020 ef nemandi heldur ekki áfram námi á haustmisseri 2020.
 • Ekki verður óskað eftir veikindavottorðum vegna fjarveru nemenda í prófum á vormisseri 2020.
 • Opnað verður fyrir skráningu til próftöku á aukapróftímabili þann 5. júní og er skráning opin til 19. júní 2020. Próftafla verður í sömu röð og í maí prófum og liggur fyrir á næstunni.
 • Ákvæði f- liðar 5. gr. reglna nr. 921/2018 um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri um að nemanda sé einungis heimilt að endurtaka próf í hverju námskeiði einu sinni gildir ekki að þessu sinni og nemendum heimilt að endurtaka próf tvisvar. Nemendur eru hvattir til að ljúka námskeiðum vormisseris í ágúst prófatíð í stað þess að fresta til vormisseris 2021.
 • Nemendur sem ná ekki tilskilinni lágmarkseinkunn á reglulegu próftímabili geta nýtt sér próftöku á aukapróftímabili í ágúst.

Fundargerð háskólaráðs nr. 413 í heild sinni.

30 kandídatar brautskrást 15. október 2020:

 • 7 úr menntunarfræði M.Ed.
 • 4 úr menntavísindum MS
 • 3 úr heilbrigðisvísindum MS
 • 1 úr viðskiptafræði MS
 • 1 úr heimskautarétti MA
 • 2 úr nútímafræði BA
 • 2 úr sálfræði BA
 • 1 úr viðskiptafræði BS
 • 1 úr félagsvísindum BA
 • 1 úr lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn
 • 7 úr Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða

Kandídatar fá prófskírteinin sín send á næstu dögum.

Háskólinn á Akureyri óskar kandídötum og aðstandendum þeirra hjartanlega til hamingju með áfangann!