60% innflytjenda óánægðir með íslenskukennslu

Ný skýrsla um viðhorf innflytjenda á Íslandi til símenntunar og íslenskunámskeiða gefur kennslunni falleinkunn. Þeir innflytjendur sem bera lítið sem ekkert traust til alþingis taka frekar þátt í kosningum
60% innflytjenda óánægðir með íslenskukennslu

Markus Meckl, prófessor við félagsvísindadeild HA, hafði umsjón með rannsókninni og segir að víða sé íslenskukennslu fyrir innflytjendur ábótavant. Engin gæðaviðmið séu til né heldur stöðluð markmið né heldur sé farið fram á grunnfæri eða menntun kennara. Hann telur að þar sem íslenska ríkið leggi jafn mikla áherslu á að innflytjendur læri íslensku þá hljóti að eiga að vera sameignleg lærdómsviðmið – hvar sem er á landinu.

„Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þar sem innflytjendur eru orðinn stór hluti af því. Ef við getum ekki sinnt skyldu okkar að bjóða innflytjendum faglegt, vandað nám í íslensku hvar sem þeir búa á landinu- þá erum við ekki bara að bregðast þeim heldur líka væntingum samfélagsins um að innflytjendur þurfi að kunna íslensku til að geta aðlagast samfélaginu“, segir Markus.

Hann bendir á að hægt sé að horfa til Noregs eða Þýskalands sem fyrirmyndir. „Það er sama hvar í veröldinni þú lærir þýsku, viðmiðin og uppbygging námsins er sú sama. Notast er við svipaðar námsbækur og nemendur geta aflað sé prófa til að sýna vinnuveitendum fram á kunnáttuna.

Rannsóknarverkefnið „Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi“ var hleypt af stokkunum í Háskólanum á Akureyri 2018. Verkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði.

Rannsóknin miðaði að því að bera saman aðlögunarmynstur innflytjenda í sveitarfélögum víðs vegar um landið og markar hún ákveðin tímamót í rannsóknum á innflytjendamálum á Íslandi þar sem fáar jafn viðamiklar rannsóknir á málefnum innflytjenda hafa verið gerðar hérlendis. Markmið könnunarinnar var að fá innsýn í stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi og var áhersla lögð á þætti er varða tungumál, atvinnu, menntun, menningu og hamingju. Jafnhliða því var einnig gerð könnun á viðhorfum Íslendinga til fjölmenningar og innflytjenda. Tólf sveitarfélög og svæði voru skoðuð sérstaklega þar sem að þau uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar um fjölda búsettra innflytjenda á svæðinu.