Brautskráning Háskólans á Akureyri

Brautskráðir voru samtals 445 kandídatar úr grunn- og framhaldsnámi
Brautskráning Háskólans á Akureyri

Brautskráning Háskólans á Akureyri fór fram á sjónvarpsstöðinni N4 klukkan 15:00 í dag, 13. júní. Vegna aðstæðna í samfélaginu var brautskráning HA rafræn í ár. Fjöldi nema og starfsfólks safnaðist saman fyrir framan skjáinn með vinum og vandamönnum og horfðu á dagskránna sem einkenndist af innslögum frá kandídötum og starfsfólki ásamt tónlistaratriðum. Þann 5. september á 33 ára afmæli háskólans verður blásið til hátíðarhalda, sem sérstaklega verða tileinkuð kandídötum sem brautskrást árið 2020. Þá mun kandídötum gefast tækifæri til þess að fagna áfanganum með sanmenemdum sínum og starfsfólki. 

Í ræðu sinni fjallaði rektor um sveigjanlega námsfyrirkomulag skólans, mikilvægi háskólanáms og mannréttinda.

„Hvernig tryggjum við góð lífsskilyrði fyrir alla? Hvernig tryggjum við mannréttindi fyrir alla? Hvernig tryggjum við jafnrétti fyrir alla? Hvernig leysum við þá hættu sem að okkur stafar í loftslagsvánni? Hvernig tökumst við á við það að vinaþjóðir okkar eru enn að glíma við kynþáttahatur og misskiptingu – hvernig tökumst við á við okkar eigin fordóma? Atburðir síðustu vikna í Bandaríkjum Norður-Ameríku sýna okkur líka glöggt að þrátt fyrir að við getum sent fólk til tunglsins og róbóta til mars þá hefur ekki tekist að uppræta það samfélagslega mein sem kynþáttafordómar eru.“ sagði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Þá bætti hann við „Brot á mannréttindum og skortur á mannúð er ekki einkamál einstaklinga, þjóða eða samfélaga yfirleitt. Þar verðum við öll að taka saman höndum og berjast fyrir bættum heimi.“

Rektor óskaði einnig eftir stuðningi allra landsmanna þannig að HA gæti tekið á móti þeim nemendum sem þar vilja stunda sitt háskólanám.

„Kæru landsmenn – við þurfum á ykkar stuðningi að halda við að minna stjórnvöld á að aðgengi að háskólum verður að vera opið landsmönnum öllum óháð búsetu – og þar gegnir Háskólinn á Akureyri lykilhlutverki.“

Ræða rektors í heild sinni.


Heiðursgestur brautskráningu var Helgi Björnsson, söngvari og leikari. Í ræðu sinni hvatti nemendur að vera þú sjálfur og minnti okkur á a' þú sjálfur sérð um að skapa þér tækifæri með því að treysta á sjálfan þig. Hann minnti okkur einnig á mikilvægi þess að fylgja hjartanu, hafa gaman og að við erum öll sexý. Einnig flutti hann lagið Síðan hittumst við aftur.

Þátttaka kandídata í brautskráningu var mikil. Þar ber að nefna innsendar kveðjur þar sem kandídatar sendu samnemendum sínum og starfsfólki og rifjuðu upp minningar frá háskólaárunum. Þá stóð Stúdentafélag Háskólans á Akureyri fyrir sérstöku atriði, þar sem Ágústa Skúladóttir kandídat í viðskiptafræði flutti lag um lífið í háskólanum og fjölbreyttar myndir úr félagslífi fengu að njóta sín. Þá flutti Amelía Ósk Hjálmarsdóttir kandídat í sjávarútvegsfræði eitt lag, við undirleik Stefáns Elí Haukssonar sem einnig flutti frumsamið lag.

Kynnir var Guðmundur Gunnarson útskrifaður fjölmiðlafræðingur frá HA. Starfsfólk háskólans tók einnig virkan þátt í dagskránni en gengið var út frá því markmiði að skapa hátíð sem myndi fanga þá gleðustund sem brautskráning er. Starfsfólk háskólans brá sér í hins ýmsu hlutverk og teljum við að útsendingin hafi sýnt hversu sterkt, öflugt og persónulegt námssamfélagið í raun og veru er við Háskólann á Akureyri.

Brautskráðir voru samtals 445 kandídatar, 343 í grunnnámi og 102 í framhaldsnámi.

Skipting kandídata eftir fræðasviðum er eftirfarandi:

Heilbrigðisvísindasvið: 76 í grunnnámi og 40 í framhaldsnámi 

Hug- og félagsvísindasvið: 177 í grunnnámi og 62 í framhaldsnámi 

Viðskipta- og raunvísindasvið: 90 í grunnnámi

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur hlutu eftirtaldir:

Kristín Fríða Alfreðsdóttir hlaut viðurkenningu frá félagsvísindadeild fyrir hæstu einkunn með BA gráðu.

Hrefna Maren Jörgensdóttir hlaut viðurkenningu frá kennaradeild fyrir hæstu einkunn með B.Ed. gráðu.

Stefán Aspar Stefánsson hlaut viðurkenningu frá lagadeild fyrir hæstu einkunn með BA gráðu.

Guðrún Rut Guðmundsdóttir hlut viðurkenningu frá sálfræðideild fyrir hæstu einkunn með BA gráðu.

Bryndís Sóley Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Hug- og félagsvísindasviði fyrir hæstu einkunn til meistaraprófs.

Elísabet Ragna Hannesdóttir hlaut viðurkenningu frá SAk fyrir hæstu meðaleinkunn í hjúkrunarfræðideild.

Andrea Björt Ólafsdóttir hlaut viðurkenningu frá SAk fyrir hæstu meðaleinkunn í 180 ECTS bakkalárprófi í iðjuþjálfunarfræði.

Aldís Anna Þorsteinsdóttir hlaut viðurkenningu frá Iðjuþjálfunarfélagi Íslands fyrir hæstu meðaleinkunn í 240 ECTS bakkalárprófi í iðjuþjálfunarfræði.

Anna Karen Sigurjónsdóttir hlut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn í námskeiðum í Samfélagshjúkrunar.

Sandra Sif Gunnarsdóttir hlut viðurkenningu frá Heilbrigðisvísindasviði fyrir hæstu einkunn í meistaranámi.

Bjartur Hilmisson hlaut viðurkenningu fyrir besta námsárangur í auðlindadeild og jafnframt besta námsárangur á Viðskipta- og raunvísindasviði, með ágætis einkunnina 9,41 og er það þriðja hæsta meðaleinkunn við auðlindadeild frá upphafi.

Erna Ósk Björgvinsdóttir hlut viðurkenningu fyrir besta námsárangur við viðskiptadeild.

Þórný Stefánsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir besta námsárangur í tölvunarfræði frá HR við HA.

KEA verðlaunahafar:

KEA styrkir þrjá kandídata við brautskráningu HA. Það eru nemendur með hæstu meðaleinkunn í grunnnámi, einn af hverju fræðasviði. Styrkirnir hafa verið veittir um árabil enda hafa KEA og Háskólinn á Akureyri átt gott samstarf.

Heilbrigðisvísindasvið: Elísabet Ragna Hannesdóttir

Hug- og félagsvísindasvið: Guðrún Rut Guðmundsdóttir

Viðskipta- og raunvísindasvið: Bjartur Hilmisson

Styrkir Zontaklúbbana á Akureyri

Zontaklúbbarnir á Akureyri veita styrki fyrir góðar lokaritgerðir sem fjalla um stöðu og réttindi kvenna á einhvern hátt. Hvor klúbbur veitir ein verðlaun.

Zontaklúbbur Akureyrar veitti Fayrouz Nouh viðurkenningu fyrir góða lokaritgerð sem fjallar um stöðu og réttindi kvenna.

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna veitti Arndísi Vilhjálmsdóttur viðurkenningu fyrir góða lokaritgerð sem fjallar um stöðu og réttindi kvenna.

Heiðursverðlaun Góðvina

Í 16 skipti veittu Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra nemenda við HA og annarra velunnara háskólans, viðurkenningar til kandídata sem hafa sýnt góðan námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans á meðan á námstíma stóð.

Hug- og félagsvísindasvið: Karen Jónasdóttir

Heilbrigðisvísindasvið: Sigríður Arna Lund

Viðskipta- og raunvísindasvið: Þórný Stefánsdóttir

Framhaldsnám: Helena Sjørup Eiríksdóttir 

Þáttinn í heild sinni má nálgast hér.

STARFSFÓLK HÁSKÓLANS Á AKUREYRI ÓSKAR ÖLLUM KANDÍDÖTUM INNILEGA TIL HAMINGJU MEÐ BRAUTSKRÁNINGU OG VELFARNAÐAR Í LÍFI OG STARFI!