Endurskoðuð jafnréttisáætlun fyrir Háskólann á Akureyri

Ný jafnréttislög til hliðsjónar
Endurskoðuð jafnréttisáætlun fyrir Háskólann á Akureyri

Jafnréttisráð hefur nú lokið við endurskoðun jafnréttisáætlunar Háskólans á Akureyri og hefur sú vinna staðið yfir allt þetta skólaár. Við endurskoðunina voru niðurstöður úr vinnu við Jafnréttisvísi Capacent hafðar til hliðsjónar. Ný jafnréttislög tóku gildi þann 6. janúar sl. og voru þau einnig höfð til hliðsjónar við endurskoðunina. Jafnréttisráð kynnti drög að endurskoðaðri jafnréttisáætlun fyrir framkvæmdastjórn í byrjun mars og því næst fór hún í samráðsgátt háskólans. Háskólaráð samþykkti endurskoðaða áætlun á fundi sínum þann 15. apríl sl. og í kjölfarið var hún send Jafnréttisstofu sem yfirfór hana og samþykkti.

Áætlunin gildir fyrir árin 2021 til 2024 og er aðgengileg í heild sinni á vef háskólans.

Ávallt skal tekið mið af þörfum og viðhorfum kynjanna 

Samhliða endurskoðun áætlunarinnar var útbúið eyðublað, eða jafnréttisskimun, sem ætlað er að meta áhrif ákvarðana innan skólans á jafnrétti kynjanna. Búið er að kynna eyðublaðið fyrir framkvæmdastjórn sem hefur tekið það til notkunar til reynslu og stefnt er að fullri innleiðingu þess með haustinu. Þegar unnið er að stefnumótun eða ákvarðanir teknar skal ávallt huga að því að taka mið af þörfum og viðhorfum kynjanna og greina afleiðingar stefnu og aðgerða með tilliti til jafnréttis.

Í Jafnréttisráði eiga sæti Árný Þóra Ármannsdóttir, Finnur Friðriksson, Sigríður Sía Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson. Þá eiga tveir stúdentafulltrúar sæti í ráðinu og á endurskoðunartímanum voru það Bjartur Ari Hansson og Nökkvi Alexander Rounak Jónsson. Rektorskipaður formaður er Sólveig Elín Þórhallsdóttir og starfsmaður Jafnréttisráðs í 25% stöðuhlutfalli er Arnar Þór Jóhannesson.