Háskólahátíð á Vestfjörðum

Á þjóðhátíðardaginn, þann 17. júní síðastliðinn, var haldin háskólahátíð Háskólaseturs Vestfjarða á Hrafnseyri.
Háskólahátíð á Vestfjörðum

Á Háskólahátíð er útskrift allra háskólanema af Vestfjörðum fagnað og rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson, brautskráir nemendur. Í ár brautskráðust 22 nemendur úr meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun og 1 úr sjávartengdri nýsköpun. Báðar námsleiðir eru kenndar hjá Háskólasetri Vestfjarða í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Nemendurnir koma frá Íslandi, Bretlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Spáni, Hollandi, Kanada og Hong Kong.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, við brautskráninguna

„Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framgangi námsins á síðustu árum og þess góða samstarfs sem er á milli HSVest og HA. Er það von mín að það samstarf eigi eftir að eflast og þroskast í framtíðinni. Háskólasetur Vestfjarða og skólaumhverfið allt er gríðarlega mikilvægur þáttur í styrkingu samfélagsins á vestfjörðum,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor við Háskólann á Akureyri.

Meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun hófst fyrir 11 árum og síðan þá hafa rúmlega 140 nemendur útskrifast.