Hvatningarstyrkir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Fá 500.000 kr. styrk
Hvatningarstyrkir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild HA, ásamt Katrínu Ösp Jónsdóttur, brautskráðum hjúkrunarfræðingi frá Háskólanum á Akureyri og meistaranemi við framhaldsnámsdeild Heilbrigðisvísindasviðs, fá í dag úthlutað hvatningarstyrk frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Styrkurinn er veittur frumkvöðlum í hjúkrun. 

Tilkynnt verður um þetta á aðalfundi félagsins í dag sem ber upp á alþjóðadag hjúkrunarfræðinga. Í umsögn um þær segir: 

Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir er kennslu- og þjálfunarstjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hún hefur unnið ötullega að því að byggja upp hermisetur á sjúkrahúsinu og sett metnað í að skipuleggja sérhæfð námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk. Hrafnhildur Lilja er einnig virk í alþjóðlegu samstarfi, þar á meðal við eflingu á námi í sjúkraflutningum. 

Katrín Ösp Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingur hjá Heilsu og sálfræðiþjónustunni á Akureyri. Hún hefur unnið ötullega að því að koma málefni samúðarþreytu í umræðuna. Mikil vinna er fram undan í þeim málum. Katrín Ösp er nú mastersnámi, þar er hún m.a. að skrifa um áföll í starfi hjúkrunarfræðinga.  

Að auki fá eftirtaldir hvatningarstyrkinn: 

Margrét Guðnadóttir er verkefnastjóri SELMA, sérhæft öldrunarteymi hjúkrunarfræðinga og Læknavaktarinnar sem tók til starfa hjá heimahjúkrun Reykjavíkurborgar árið 2020. Margrét hefur einstaka sýn á verkefnið, markmið þess og þróunarmöguleika með hag aldraðra í heimahúsum að leiðarljósi.  

Atli Már Markússon hefur staðið fyrir námskeiði, kennslu og þjálfun fyrir hjúkrunarfræðinga sem vilja starfa í sjúkraþyrlum. Atli Már hefur gífurlegan metnað fyrir því að bæta þjónustu við sjúklinga utan sjúkrahúsa.  

Stefanía Birna Arnardóttir starfar í Geðheilsumiðstöð barna og hefur verið í hópi frumkvöðla sem hafa vakið athygli á nauðsyn snemmtækrar íhlutunar þegar foreldrar með geðrænan vanda eiga von á barni. Stefanía Birna vinnur nú innan heilsugæslunnar þar sem foreldrum og ungbörnum er sinnt út frá tengslakenningum.