Hvatningarstyrkur til meistaranema í námi til kennsluréttinda

Hvatningarstyrkur leysir af hólmi námsstyrk sem var bundinn við skil meistaraprófsritgerðar.
Hvatningarstyrkur til meistaranema í námi til kennsluréttinda

Frá og með haustmisseri 2020 geta allir nemar í 120 ECTS meistaranámi til kennsluréttinda sótt um hvatningarstyrk. Markmið hans er að hvetja nemendur til að ljúka námi á tilsettum tíma og þannig fjölga kennurum í skólastarfi. Allir nemendur á lokaári í meistaranámi til kennsluréttinda geta sótt um styrkinn burtséð frá námsleið (M.Ed. eða MT) eða sérhæfingu á skólastigi (leik-, grunn- og framhaldsskóli). Einnig geta nemendur í 60 ECTS viðbótarnámi til kennsluréttinda í framhaldsskóla sótt um helming styrksins. 

MT gráðan er ný leið þar sem að kennaranemar velja sér áherslusvið og ljúka þremur 10 ECTS eininga námskeiðum á seinna ári meistaranámsins í stað þess að skrifa meistaraprófsritgerð. Áherslusviðin í MT námi eru: Mál og læsi, Skóli margbreytileikans og Upplýsingatækni í skólastarfi.   

Hver nemi sem lýkur námi til kennsluréttinda getur fengið 800.000 kr. styrk. Fyrri hlutinn, 400.000 kr. greiðist út þegar nemi hefur lokið 90 einingum í meistaranáminu og eftirstöðvarnar þegar nemi hefur lokið námi. Réttur til að sækja um síðari hluta styrksins fellur niður brautskráist nemi ekki innan 12 mánaða frá móttöku fyrri hluta styrksins. 

Þeir sem ljúka námi frá og með vorönn 2021 í 60 ECTS viðbótarnámi til kennsluréttinda í framhaldsskóla geta fengið helmings styrksins, 400.000 kr. sem greiðist út í einu lagi við námslok.