Nýr forstöðumaður RHA

Baldvin Valdemarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður RHA til næstu 12 mánaða frá 16. ágúst sl.
Nýr forstöðumaður RHA

Baldvin var sviðsstjóri Atvinnu- og byggðaþróunar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi Eystra (SSNE) og hefur verið þar og hjá forverum þess Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar sl. 9 ár. Baldvin þekkir vel til styrktar- og rannsóknarumhverfis atvinnu- og byggðamála. Hann hefur fjölbreytta reynslu af mati umsókna inn í m.a. Sóknaráætlun og Uppbyggingarsjóð Norðurlands Eystra . Einnig hefur hann verið í verkefnastjórn um borgarhlutverk Akureyrar en það verkefni er í umsjón RHA.

Baldvin tekur við af Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur sem hefur starfað sem forstöðumaður RHA sl. 13 ár.

Ólík verkefni

Helstu verkefni forstöðumanns RHA eru verkefnaöflun, eftirfylgni og samskipti við þá sem þiggja þjónustu RHA, bæði innan og utan háskólans, kostnaðareftirlit, uppgjör verkefna og umsýsla með starfseminni.

„Núna í vikunni kláraði RHA tvö ólík verkefni. Stór netkönnun var framkvæmd vegna komandi Alþingiskosninga og samgöngu- og sveitastjórnaráðherra var afhent ný skýrsla um skilgreiningu á Akureyri sem svæðisborg. Bæði þessi verkefni eru góð dæmi um það sem ég hlakka mest til að fá að taka þátt í á þessu ári sem ég mun starfa sem forstöðumaður RHA,“ segir Baldvin.

Annað sjónarhorn

RHA - Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri er sjálfstæð eining innan Háskólans á Akureyri (HA) og hefur verið starfandi frá árinu 1992. „RHA er eina starfsemi sinnar tegundar utan höfuðborgarsvæðisins og þess vegna mjög mikilvæg fyrir svæðið og landið allt. Verkefni RHA eru gjarnan landsbyggðamiðuð og taka oft fyrir annað sjónarhorn á það sem er til rannsóknar hverju sinni. RHA vinnur fyrst og fremst í þágu samfélagsins sem byggir á góðum tengslum við atvinnulífið þ.m.t. opinber fyrirtæki, sveitarstjórnir, önnur stjórnvöld og að sjálfsögðu fræðasamfélagið,“ segir Baldvin að lokum.