Nýr fulltrúi HA ritstjóri

Rúnar Sigþórsson hefur tekið við sem annar af ritstjórum Tímarits um uppeldi og menntun.
Nýr fulltrúi HA ritstjóri

Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild Háskólans hefur tekið við sem annar af ritstjórum Tímarits um uppeldi og menntun. Hann tekur við því starfi af Hermínu Gunnþórsdóttur, dósent við kennaradeild, en hún gegndi því frá því tímaritið hóf göngu sína vorið 2016. Hug- og félagsvísindasvið þakkar Hermínu kærlega fyrir vel unnin störf sem ritstjóri. 

Tímarit um uppeldi og menntun tók við af tveimur eldri tímaritum: Uppeldi og menntun og Tímariti um menntarannsóknir. Það er gefið út í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Félags um menntarannsóknir. Ritstjórar eru tveir og er annar þeirra tilnefndur af Menntavísindasviði HÍ og hinn af hug- og félagsvísindasviði HA. Að jafnaði koma út tvö hefti á ári, vor og haust. Þau eru gefin út í opunum aðgangi á vef en einnig prentuð og send áskrifendum auk þess að vera seld í lausasölu.

Tímaritið birtir ritrýndar greinar á íslensku eða ensku sem tengjast viðfangsefni þess; uppeldi og menntun, og einnig ritdóma. Lögð er áhersla á að efnið endurspegli það sem efst er á baugi á því sviði bæði hér á landi og erlendis.