Skilaboð frá Eyjólfi Rektor

Markmið okkar er að aðstoða ykkur við að komast í gegnum þennan skafl.
Skilaboð frá Eyjólfi Rektor

Fyrstu viku samkomubanns er nú lokið.  Yfirstjórn skólans er að fara yfir stöðuna eftir vikuna og gerum við okkur vel grein fyrir því að í núverandi ástandi hefur álag aukist mikið á nemendur.  Sum ykkar eru þegar orðin veik eða eigið veika ættinga, eruð í sóttkví, takið virkan þátt í starfi heilbrigðisstétta og annarra í baráttunni við Kófið.  Þið getið staðið frammi fyrir lokun skóla og leikskóla þannig að börnin þurfi að vera heima eða hafið áhyggjur af ættingjum og vinum sem teljast í áhættuhópum.  Allt eykur þetta á áhyggjur okkar og álag í daglegu lífi - við vitum af þessu og skiljum aðstæður ykkar og erum mjög stolt af því að sjá hvernig þið takist á við þetta erfiða ástand.

Ég vil minna á að meginmarkmið okkar sem háskóla á þessum tíma er að aðstoða nemendur við að ljúka þessu vormisseri og eru kennarar og annað starfsfólk að skoða margvíslegar aðgerðir sem hægt verður að grípa til eftir því hvernig ástandið þróast í samfélaginu.

Þá vil ég einnig minna á að ef þið af einhverjum ástæðum getið ekki sinnt ykkar námi að fullu þá nægir að tilkynna það til viðkomandi sviðsskrifstofu og í framhaldi af því verða fundnar lausnir með viðkomandi deild.  Minni jafnframt á að LÍN hefur gefið út ný viðmið og leiðbeiningar til að aðstoða nemendur í lok misseris.

Stjórnendur skólans munu fara yfir stöðuna eftir þessa viku og skoða nánar í upphafi næstu viku hvort að þörf verði á almennum aðgerðum þvert á skólann gagnvart námsmati; þ.e. verkefnaskilum og prófum.  

Sem rektor vil ég koma því skýrt á framfæri að markmið okkar er að aðstoða ykkur við að komast í gegnum þennan skafl.  Hluti af þeirri aðstoð er að tryggja að þið hafið aðgengi að náminu rafrænt og fáið tækifæri til þess að ljúka námi á þessu misseri þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem að okkur steðja.  Nákvæmlega með hvaða hætti það verður gert kemur ekki frekar í ljós fyrr en búið er að skoða allar þær aðgerðir sem mögulegar eru.

Í þessu umhverfi er líka mikilvægt að hafa rútínu og lítil sem stór markmið svo hægt sé að einbeita sér að gefandi verkefnum mitt í þessari miklu óvissu sem skellur á okkur á hverjum degi.  Þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem að okkur steðja vil ég hvetja ykkur til þess að sinna náminu eins vel og kostur er miðað við ykkar aðstæður, þó svo að þær aðstæður geti verið mjög erfiðar.

Kófið (COVID-19) mun ganga yfir og lífið mun komast í samt lag á ný -  Við komumst í gegnum skaflinn og verðum tilbúin að halda áfram eftir þetta áfall.

Með vinsemd og virðingu fyrir þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp hjá okkur öllum.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor