Dr. Eric Rubenstein, sem útskrifaðist með meistaragráðu í heimskautarétti í vor, hefur gert samning við alþjóðlega útgáfufyrirtækið Routledge um útgáfu á nýrri bók sinni, „Legal Personhood and the Rights of Nature: Beyond Anthropocentrism.“ Bókin byggir á meistararitgerð hans í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri sem hann skrifaði undir leiðsögn Dr. Romain Chuffart, Nansen prófessors.
Hreyfingin fyrir réttindum náttúrunnar (e. Rights of Nature) leitast við að útvíkka lagaleg réttindi þess hluta náttúrunnar sem ekki er byggður af fólki, þar á meðal dýra, áa, jökla og vistkerfa. Í dag er einungis hægt að veita réttindi til lögaðila samkvæmt lögum og allt annað, þar á meðal ofantalið er ekki skilgreint sem lögaðili. Því þarf að skoða hvort náttúran geti í einhverju formi talist lögaðili ef útvíkka á lagaleg réttindi hennar. Í bókinni eru færð rök fyrir þeirri skoðun að náttúran geti í raun talist lögaðili og að í líffræði-, siðferðis- né frumspekilegum skilningi þurfi í raun engin tengsl við einstaklinga til að teljast slíkur. Einnig er að finna í bókinni fræðilega umræðu byggða á dæmum frá Pólsvæðunum.