Forrituðu sig alla leið í annað sæti

Forritunarkeppni framhaldsskólanna haldin í HA
Forrituðu sig alla leið í annað sæti

Forritunarkeppni framhaldsskólanna var haldin laugardaginn 9. mars síðastliðinn í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík. Keppnin fór fram í níunda skipti við HA en keppnin hefur verið haldin í HR í fjölda ára. Keppnin kom norður haustið 2015 með tilkomu samstarfs HA og HR í tölvunarfræði og síðan þá hefur HA verið í góðum samskiptum við framhaldsskólana á Norðurlandi og boðið þeim að taka þátt í keppninni.

Aldrei hafa fleiri skráð sig til leiks í keppnina á Akureyri

„Það var mjög góð þátttaka í ár hér á Akureyri eða tíu lið og tæplega þrjátíu nemendur sem tóku þátt. Menntaskólinn á Akureyri hefur verið að gera mjög góða hluti á þessu sviði og verið að efla forritunarkennslu hjá sér undanfarin þrjú ár og hefur það skilað sér í aukinni þátttöku. MA og kennararnir Ingvar og Jóhann eiga stórt hrós skilið fyrir mjög flotta vinnu þar, enda er forritun orðin nauðsynlegur hlutur á náttúrufræðibrautum sem eru að undirbúa nemendur fyrir háskólanám í raungreinum,“ segir Ólafur Jónsson, verkefnastjóri hjá HA. 

Lið frá MA í 2. sæti í Alfa deild

Birkir Snær, Björn Orri og Jón Haukur skipuðu lið Sturmtroopers, mynd fengin frá MA

Ólafur var virkilega ánægður með framkvæmdina í ár og segir virkilega góða stemmingu hafa verið meðal keppenda og starfsfólks á laugardaginn. „Þátttakendum gekk almennt vel. Liðið Sturmtroopers frá MA lenti í 2. sæti í Alpha deild, sem er deild fyrir þá sem eru lengra komnir í forritun. Keppninni er skipt upp í þrjár deildir og því geta allir tekið þátt, byrjendur og lengra komnir,“ segir Ólafur.

Tölvunarfræði á Akureyri og á Austurlandi

Samstarf HA og HR í tölvunarfræði felur í sér að bjóða upp á námið á Akureyri í staðnámi. „Tölvunarfræðin hefur gengið mjög vel hér í HA og það er greinilega áhugi hjá fólki á svæðinu á þessu námi, og við höfum verið að fá nemendur af öllu Norðurlandi. Fólki hefur alltaf gengið vel að fá vinnu eftir námið en undanfarin tvö ár hefur verið hálfgerð sprenging í áhuga á þessum starfskröftum og flestir komnir með vinnu fyrir eða um útskrift,“ segir Ólafur. Einnig hefur samstarfið gert það kleift að bjóða upp á tölvunarfræði á Austurlandi. Opið er fyrir umsóknir og geta áhugasöm kynnt sér tölvunarfræði á Akureyri hér og tölvunarfræði á Austurlandi hér.