Þurfum að efla forvarnir til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar áfalla

Málþing sem lokaafurð námskeiðs um sálræn áföll og ofbeldi
Þurfum að efla forvarnir til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar áfalla

Á Alþjóðlega mannréttindadeginum þann 10. desember mun fara fram rafrænt málþing í Háskólanum á Akureyri sem tengist áföllum í víðum skilningi. Erindin eru lokaafurð stúdenta í námskeiðinu Sálræn áföll og ofbeldi.

„Málþingið er fyrir alla sem hafa áhuga á málefninu. Áföll tengjast öllum, við verðum öll fyrir áföllum á lífsleiðinni og það er mikilvægt að við áttum okkur á hvaða afleiðingar það getur haft og hvað við getum gert til að vinna með það,“ segir Sigrún Sigurðardóttir dósent og umsjónarkennari námskeiðsins.

Á málþinginu munu stúdentar og kennarar kynna nýjustu rannsóknir og deila reynslu sinni.

„Öll erindin brenna á samfélaginu okkar í dag. Má þar nefna sjálfsvíg, fíknivanda, heilsufar og líðan eftir áföll. Það kemur skýrt fram hversu mikilvægt er að leita sér hjálpar og vinna með áföllin og það eru svo margar leiðir til. Áfallamiðuð nálgun er að ryðja sér til rúms hér á landi og mikilvægt að horfa á það. Einnig erum við að átta okkur á því að við getum verið að glíma við áföll sem við höfum fengið frá fyrri kynslóðum. Við verðum að fara að efla forvarnir til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar áfalla,“ segir Sigrún.

Streymi og dagskrá hér