Fólkið í HA: Atli Egilsson

Atli Egilsson mun brátt brautskrást úr tölvunarfræði. Hann segir okkur frá náminu og svarar stóru spurningunni: Tab eða Space? Nám í tölvunarfræði við Háskólann á Akureyri er byggt upp í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.
Fólkið í HA: Atli Egilsson

Getur þú sagt okkur aðeins frá sjálfum þér?

Ég er 26 ára Akureyringur, útskrifaður af náttúrufræðibraut MA og brautskráist brátt úr tölvunarfræði HA.

Ég er gangandi tölvunörd og nýbyrjaður í sumarvinnu sem forritari. Í haust flyt ég svo suður í áframhaldandi nám í tölvunarfræði við HR.

Hver er hin hliðin á Atla?

Þrátt fyrir að vera tölvunörd, þá er ég líka gífurlegt hjólanörd. Ég á tvö hjól sem ég hugsa um eins og börnin mín en ég hef hjólað í stað þess að nota bíl núna í fjögur ár. Mér finnst fátt skemmtilegra en að vera úti í skógi að bruna niður stíga og klífa upp hæðir. Ég gæti talað dögunum saman um hjólreiðar og hjólabúnað en ég skal hlífa ykkur við því.

Auk hjólreiðanna finnst mér gaman að stunda allskonar útivist, elda góðan mat (er nefnilega sjálfskipaður grillmeistari) og stunda óhóflega kaffidrykkju.

Tröppurall við Akureyrarkirkju

Hvers vegna varð tölvunarfræði við HA fyrir valinu?

Ég hef alltaf verið að fikta við tölvur og lá áhuginn augljóslega þar hjá mér. Tölvunarfræðingar geta unnið svo fjölbreytt störf og svo er alltaf talað um að það vanti tölvunarfræðinga á vinnumarkaðinn.

Um leið og ég sá að HA byrjaði að bjóða upp á þetta nám sótti ég um og hef alls ekki séð eftir því.

Skemmtilegasta verkefnið sem þú hefur unnið í náminu?

Það er heill hellingur af skemmtilegum verkefnum sem ég hef unnið í náminu. Ef ég ætti að velja eitt sem stendur upp úr, þá er það sennilega tölvuleikurinn sem við bjuggum til á öðru ári.

Þá eyddum við þremur vikum í að hanna og útfæra leik frá grunni í hópastarfi, án þess að hafa nokkra reynslu í leikjahönnun. Það var mjög gefandi og skemmtilegt. Í lokin var haldin kynning þar sem allir leikirnir voru prófaðir í góðri stemmningu.

Hvað fannst þér erfiðast að læra og hvað hjálpaði þér að skilja það?

Að forrita í tungumálinu C. Það er eins og að þurfa að læra að skrifa á forntungumáli. Svo þegar eitthvað fer úrskeiðis þá veit maður ekkert hvar á að leita.

Skemmtileg verkefni eins og BombLab (aftengja sprengju) og AttackLab (hakka sig inn í kerfi) voru góð leið til að ná tökum á efninu.

Áttu skemmtilega sögu úr náminu?

Já, þegar ég og hópfélaginn minn vorum að klára eitt verkefni á síðustu metrunum. Skiladagur var á slaginu átta um morguninn og við höfðum verið að vinna til klukkan þrjú um nóttina að reyna að græja einn fídus. Við gáfumst upp að lokum en ég vaknaði klukkan sex um morguninn eftir að hafa dreymt lausnina. Við náðum að skila inn — að okkar mati einum ljótasta kóða sem skrifaður hefur verið í náminu - en hann virkaði og við fengum fína einkunn fyrir!

Atli á tvö hjól sem hann hugsa um eins og börnin sín. Hann hefur hjólað í stað þess að nota bíl í fjögur ár. Atla finnst fátt skemmtilegra en að vera úti í skógi að bruna niður stíga og klífa upp hæðir.

Tab eða Space?

TAB... alltaf tab. Space er fyrir siðleysingja og Vim notendur.

MAC, Windows eða Linux?

Mac í vinnunni
Linux í skólann
Windows á heimilið

Draumaverkefni eftir námið?

Stefnan er sett á að hjálpa til við þróun á Sophia sem er vélmenni sem kemst skuggalega nálægt því að vera mennskt. Eftir að hún er fullgerð fer ég í að búa til Westworld skemmtigarðinn. Það er draumurinn.

Hvað stendur upp úr eftir tímann þinn við HA?

Góða hópavinnan hefur sigurinn. Flestöll verkefnin í náminu eru unnin í hópum og það er bara algjör snilld. Við erum mjög samheldinn hópur og hjálpumst gjarnan að, bæði að deila skoðunum og ef einhver skilur ekki efnið.

Atli fór til Kanada í skiptinám Fallegir haustlitir í Ottawa.

Fórst þú í skiptinám?

Ég nýtti mér tækifæri sem bauðst núna á síðasta ári og tók eina önn í University of Ottawa. Þar gafst mér kostur á að taka valfög og skoða Kanada í leiðinni. Tölvunarfræði er svo skemmtileg að því leytinu til að kennslan er ekkert öðruvísi þó að maður stundi nám í öðru landi.

Ég bjó á ótrúlega flottum stað (sérstaklega að hausti til) og það var skemmtileg reynsla að búa á stúdentagörðum í Ameríku. Ég bjó líka með öðrum skiptinemum frá Singapúr, Danmörku og S-Kóreu og fór í hópferðir með þeim út um allt.

Getur þú gefið nýstúdentum sem hyggjast sækja um nám við HA nokkur ráð?

  1. Taktu þátt í félagslífinu hér í HA; það er ótrúlega skemmtilegt og þú gætir kynnst góðum námsfélögum.
  2. Skipuleggðu þig og forgangsraðaðu öllu sem við kemur náminu; það munar öllu.
  3. Ekki dragast aftur úr (sérstaklega ekki í forritun), efnið byggir oft á því sem var kennt áður.

Námið: Tölvunarfræði

 

Andri Dan: ViðskiptafræðiAnna Borg: Sjávarútvegsfræði Guðmundur Örn: LíftækniSvava: Iðjuþjálfun Þórhildur Edda: LíftækniAtli Egilsson: Tölvunarfræði

 

 Hvern vilt þú sjá næst í Fólkið í HA? Sendu okkur tillögu að viðmælanda.