Elín Díanna Gunnarsdóttir nýr forseti hug- og félagsvísindasviðs

Tekur við af breytingarteymi sem starfað hefur við sviðið síðasta ár.
Elín Díanna Gunnarsdóttir nýr forseti hug- og félagsvísindasviðs

Elín Díanna Gunnarsdóttir, dósent og formaður sálfræðideildar, hefur verið ráðin í stöðu forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri til næstu fjögurra ára. Hún tekur við af breytingarteymi sem sett var á laggirnar fyrir ári. Breytingarteymið skipuðu Anna Ólafsdóttir sem staðgengill sviðsforseta, Vaka Óttarsdóttir og Þóranna Jónsdóttir.

Elín Díanna tekur til starfa þann 6. ágúst nk. en hún hefur starfað við Háskólann á Akureyri við kennslu, rannsóknir og stjórnun frá árinu 2002 og býr því yfir mikilli reynslu og þekkingu á málefnum háskólans og sér í lagi málefnum hug- og félagsvísindasviðs.

Við Háskólann á Akureyri eru starfrækt þrjú fræðasvið. Auk hug- og félagsvísindasviðs sem hýsir félagsvísindadeild, kennaradeild, lagadeild og sálfræðideild eru viðskipta- og raunvísindasvið og heilbrigðisvísindasvið.