HA hefur gert samning við utanríkiráðuneytið um eflingu norðurslóðastarfs

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, heimsótti Akureyri og skrifaði undir samninginn
HA hefur gert samning við utanríkiráðuneytið um eflingu norðurslóðastarfs

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, heimsótti Akureyri í vikunni og skrifaði ásamt Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri, undir þjónustusamning milli Háskólans og utanríkisráðuneytisins.

,,Norðurslóðir eru í örri þróun og ljóst að með sjálfbærni að leiðarljósi þarf Ísland að tryggja sína hagsmuni á svæðinu. Það er því mikilvægt að þekking á þeim málum byggist upp hér á landi,” sagði Guðlaugur Þór. Hann minnti einnig á þá sérstöðu Akureyrarbæjar að vera eina sveitarfélag landsins sem nær að og upp fyrir heimskautsbaug og kvað það ánægjulegt að tryggður hafi verið viðbótarstuðningur til að styðja við þá þekkingarmiðstöð norðurslóðamála sem byggst hefur upp á Akureyri.

Samningurinn er til tveggja ára og utanríkisráðuneytið veitir fimmtíu milljónir króna til skólans á samningstímanum og mun Rannsóknaþing Norðursins halda utan um þau. Frá því Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu vorið 2019 hefur talsverð vinna, sem því tengist, farið fram í Háskólanum á Akureyri. Eyjólfur Guðmundsson rektor segir að þessi samningur milli háskólans og utanríkisráðuneytisins sé ákveðin viðurkenning á því: „Starfsfólk okkar hefur leitt formennsku í tilteknum sérfræðingahópum, vinnuhópum sérfræðinga, sem hafa verið að vinna að málefnum norðurslóða. Bæði heilbrigðismálefnum og samfélögum. Og þetta leyfir okkur sem háskólastofnun að taka fullan þátt í slíku starfi á meðan á formennskunni stendur.“

Rannsóknaþing Norðursins við Háskólann á Akureyr i heldur utan um þau verkefni sem kveðið er á um í samningnum, en ásamt því að styðja við ýmsa viðburði sem haldnir verða hér á landi í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu þá verður fjármagnið nýtt til að auðvelda og styrkja samskipti nemenda og kennara við aðrar háskólastofnanir á norðurslóðum.

Á SJÓ

Fleiri góðir gestur sóttu háskólann heim, því samhliða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu hefur að frumkvæði utanríkisráðherra verið skipuð þingmannanefnd allra flokka um endurskoðun norðurslóðastefnu Íslands. Auk þess hefur utanríkisráðherra skipað starfshóp um efnahagsþróun á Norðurslóðum. Fulltrúar beggja hópa áttu fundi með fulltrúum norðurslóðasamfélagsins og atvinnulífsins á Akureyri.