Krakkar kynnast sjávarútvegi

Sjávarútvegsskóli Háskólans á Akureyri á ferð um Norður- og Austurland.
Krakkar kynnast sjávarútvegi

Krakkar á aldrinum 13–14 ára í vinnuskólanum á Norður- og Austurlandi hafa nú í sjöunda sinn tækifæri til að kynnast sjávarútveginum í Sjávarútvegsskóla Háskólans á Akureyri. Skólinn var settur á stofn af Síldarvinnslunni hf. á Neskaupsstað en Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri tók svo við rekstri hans árið 2016. Í ár er skólinn starfræktur á fimm stöðum á Austurlandi og fjórum stöðum á Norðurlandi. Nemendur eru starfsmenn í vinnuskólanum og samtals sækja 200 krakkar skólann.

Kennslan fer fram í viku í senn á hverjum stað í samvinnu við vinnuskóla sveitarfélaganna. Umsjónarmenn eru núverandi eða fyrrverandi nemendur í sjávarútvegsfræði og líftækni við Háskólann á Akureyri. Nemendur fá fræðslu um mikilvægi sjávarútvegs og hvaða atvinnumöguleika og tækifæri hann hefur upp á að bjóða. Auk fræðslunnar fá nemendur að fara í heimsóknir til sjávarútvegsfyrirtækja og stoðfyrirtækja í sjávarútvegi, gestafyrirlesarar koma með erindi og björgunarsveitir heimsóttar.

„Mikilvægi Sjávarútvegsskólans í þessum minni sveitarfélögum á landsbyggðinni er ómetanlegt. Margir þessara unglinga þekkja vafalaust til sjávarútvegsins – hann er allt um lykjandi – en með fræðilegri- og lifandi nálgun er hægt að varpa ljósi á framþróunina og nýja möguleika sem einmitt þessir unglingar gætu haft á framtíð sjávarútvegsins um allt land. Í breyttu starfsumhverfi sjávarútvegsins hafa unglingar í dag færri tækifæri til að starfa beint hjá fyrirtækjunum og því er Sjávarútvegsskólinn nauðsynleg tenging við unga fólkið”, segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Umsjónarmenn á Austurlandi eru María Marta Bjarkadóttir, núverandi nemandi í sjávarútvegsfræði, og Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, nýbrautskráð úr sjávarútvegsfræði. Á Norðurlandi standa vaktina María Dís Ólafsdóttir, sem er brautskráð úr líftækni, og Magnús Víðisson, brautskráður úr sjávarútvegsfræði. Gaman er að fylgjast með starfinu í máli og myndum á Facebook-síðu Sjávarútvegsskólans. Auðséð er að starfið er fjölbreytt og skemmtilegt.

Mynd frá Sjávarútvegsskólanum

Mynd frá Sjávarútvegsskólanum Mynd frá Sjávarútvegsskólanum

Mynd frá Sjávarútvegsskólanum Mynd frá Sjávarútvegsskólanum

Mynd frá Sjávarútvegsskólanum Mynd frá Sjávarútvegsskólanum

Mynd frá Sjávarútvegsskólanum Mynd frá Sjávarútvegsskólanum