Sjávarútvegsfræðingar frá HA ráðnar til ábyrgðarstarfa

Greinilegt að námið er góður grunnur fyrir fólk sem ætlar að starfa í alþjóðlegri atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn er
Sjávarútvegsfræðingar frá HA ráðnar til ábyrgðarstarfa

Sunneva Ósk Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framleiðslustjóra landvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa, en hún gegndi áður stöðu gæðastjóra félagsins. Þá tekur Unnur Inga Kristinsdóttir, sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood, við starfi Sunnevu sem gæðastjóri landvinnslu, en Gyða Birnisdóttir hefur verið ráðin sem sölufulltrúi Ice Fresh Seafood. Þær eru allar sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri.

Í tilkynningu frá Samherja kemur fram að hjá fyrirtækinu og tengdum félögum starfi hátt í þrjátíu sjávarútvegsfræðingar. Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að:

Reynsla Sam­herja af út­skrifuðum sjáv­ar­út­vegs­fræðing­um er góð og greini­legt að námið er góður grunn­ur fyr­ir fólk sem ætl­ar að starfa í alþjóðlegri at­vinnu­grein eins og
sjáv­ar­út­veg­ur­inn er.

Gyða Birnisdóttir lauk BS prófi í sjávarútvegsfræði í júní 2021. „Sjávarútvegsfræði er fjölbreytt og krefjandi nám sem undirbýr mann vel fyrir atvinnulífið. Námið er þverfaglegt þar sem sérstök áhersla er lögð á sjávarútveg en einnig er það samsett af námskeiðum tengdum viðskiptafræði og raunvísindum. Það ríkir mikil þekking og reynsla meðal kennara á sviðinu sem gefur manni heildræna þekkingu á sjávarútvegi sem atvinnugrein. Mér finnst mikill kostur hvað námið er persónulegt og aðgengi að kennurum er gott. Það sem stendur upp úr frá þeim tíma sem ég stundaði nám við HA er klárlega fólkið sem ég kynntist, bæði nemendur og kennarar. Tímarnir voru áhugaverðir og umræður líflegar. Kennarar tengja námið vel við atvinnulífið sem eflir tengslanetið samhliða náminu,“ segir Gyða.

Unnur Inga tekur í sama streng og Gyða og undirstrikar að sjávarútvegsfræðin sé góður grunnur fyrir fjölbreytt störf atvinnulífsins hvort sem það er tengt sjávarútvegi eða ekki. Þá segir hún jafnframt að verklegu tímarnir hafi staðið upp úr: „Mér finnst mikilvægt að nemendur fái raunverulega tilfinningu fyrir því sem verið er að kenna og fái jafnvel að taka þátt í skipulagningu, ég held að það sé næstum öruggt að slíkt fyrirkomulag skili sér betur til nemenda heldur en að sitja og hlusta eingöngu á fyrirlestra allt misserið. Þetta samspil á milli bóklegu- og verkleguþáttanna er einmitt það sem einkennir námið að mínu mati, verðmæt reynsla og þekking skapast sem getur komið sér vel þegar kemur að því að þreifa fyrir sér í atvinnulífinu.“