Tvöfaldur Íslandsmeistari í karlaflokki í stórsvigi og sveitasvigi

Vísindafólkið okkar — Guðmundur Heiðar Frímannsson
Tvöfaldur Íslandsmeistari í karlaflokki í stórsvigi og sveitasvigi

Guðmundur Heiðar Frímannsson er prófessor emeritus í heimspeki við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann lét af störfum í ágúst síðastliðinn eftir 30 starf við háskólann en heldur áfram að sinna rannsóknum með aðstöðu við HA.

Heimspekin svolítið skrýtin

„Heimspeki er svolítið skrýtin grein í heimi fræðanna því að hún fæst ekki við að uppgötva nýjar staðreyndir heldur við að skýra merkingu hugtaka og orða, rannsaka ályktanir, rök, rökfærslur og þverstæður og svo smíða heimspekingar kenningar. Hún rannsakar bæði þær ályktanir sem eru skýrar og augljósar og einnig þær sem eru duldar og ekki orðaðar. Heimspeki hefur bæði eigin viðfangsefni og viðfangsefni sem eru hluti annarra fræðasviða innan félags- og raunvísinda,“ segir Guðmundur.

Guðmundur er heimspekingur að mennt og hefur kennt margvísleg viðfangsefni innan heimspekinnar og skyldra greina. Mest af kennslunni hefur verið í siðfræði, bæði eins og hún birtist í starfi kennara og einnig í starfi hjúkrunarfræðinga. Hann hefur einnig lengi kennt námskeið um heimspeki menntunar í Kennaradeild og annað um siðfræði og álitamál í námsbraut í nútímafræði.

Skólakerfi mikilvægur þáttur í félagsmótun ungs fólks 

Guðmundur hefur beint rannsóknum sínum að sambandi menntunar og lýðræðis og skrifaði um það bókina Skóla og lýðræði. Um borgaramenntun. „Einn vandinn við svona rannsókn er að vita og skilja hvað verið er að tala um og þess vegna þarf að fjalla um hvað lýðræði sé og hvað menntun og einnig hvað vitum við um lýðræði og menntun og þá um leið hvað vitum við ekki. Við vitum til dæmis um skólakerfi að þau gegna margvíslegum hlutverkum í hverju samfélagi, þau eru mikilvægur þáttur í félagsmótun alls ungs fólks í nútíma samfélögum en félagsmótun er ekki það sama og menntun. Einn mikilvægur skilningur menntunar er að hún sé að fullna möguleika hvers einstaklings, þroska hæfileika hvers og eins og þar með efla færni, þekkingu og víðsýni borgaranna. Lýðræði er þjóðskipulag sem felst í því að borgararnir ráði ákveðnum lykilþáttum samfélagsins, allt pólitískt vald sé sótt til þeirra. Spurningin vaknar: Hvað þurfa borgararnir til að geta sinnt hlutverki sínu í lýðræði? Þeir þurfa að vita og kunna ýmislegt og geta metið upplýsingar og markmið sem stjórnvöld og stjórnmálaflokkar vilja setja. Menntun borgaranna virðist nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið virki,“ segir Guðmundur.

„Síðustu árin hef ég tekið þátt í rannsókn á borgaralegu hlutverki háskóla og niðurstöður úr þeirri rannsókn eru að birtast þessa mánuðina og ég reyni að koma því verki áleiðis eftir að ég lét af störfum. Ég hef svo lagt drög að nokkrum athugunum í stjórnmálaheimspeki sem ég hyggst skrifa á næstu misserum. Það eru spurningar á borð við hvers konar verknaður er það að kjósa í kosningum, af hverju ætti minnihlutinn alltaf að sætta sig við ákvarðanir meirihlutans, hvernig á að skilja þrískiptingu ríkisvaldsins,“ segir Guðmundur.

Akureyri efldi skíðamanninn

Guðmundur er fæddur á Ísafirði árið 1952 en flutti þaðan á fyrsta ári og bjó í æsku í vesturbænum í Reykjavík og í Kópavogi en fluttist til Akureyrar árið 1964 og hefur búið þar síðan. „Móðir mín var afrekskona á skíðum. Meðan við bjuggum á Reykjavíkursvæðinu sóttum við reglulega Skálafell, Hveradali og Jósefsdal til að fara á skíði. En ég var mjög óbjörgulegur við að renna mér þótt afi minn og nafni hafi lagt sig fram um að kenna mér. Eftir að við fluttum norður og ég kynntist Hlíðarfjalli og Magnúsi Guðmundssyni heitnum tók ég miklum framförum sem endaði með því að ég varð tvöfaldur Íslandsmeistari í karlaflokki í stórsvigi og sveitasvigi árið 1970 á Siglufirði þá sautján ára gamall.“ 

Fyrstur til að ljúka námi í heimspeki

„Á menntaskólaárunum tók ég þátt í sellufundum og við lásum saman ýmis rit Marx og Engels. Ég las líka sumt eftir Brynjólf Bjarnason og Sigurð Nordal sem hafði áhrif á það að ég ákvað að læra heimspeki í Háskóla Íslands. En í upphafi var sálfræði aðalgreinin og ég stefndi á að ljúka henni en þetta breyttist og ég skrifaði lokaritgerð í heimspeki og hélt áfram að læra hana. Haustið 1972 var byrjað að kenna heimspeki við HÍ og við byrjuðum um það bil þrjátíu í þessu námi en á öðru ári hafði fækkað svo í hópnum að það voru einungis sex eftir. Ég varð fyrstur til að ljúka námi í heimspeki sem aðalgrein við HÍ í febrúar 1976.“

„Ég hélt áfram námi í Lundúnum og síðar í St. Andrews í Skotlandi en þaðan lauk ég doktorsprófi í siðfræði árið 1991. Við hjónin ásamt tveimur yngri börnum okkar lifðum góð ár á austurströnd Skotlands og hugsum ávallt með söknuði til þess. Síðar dvöldum við eitt ár í Glasgow sem var ekki síðra,“ segir Guðmundur að lokum.


Á myndinni eru talið frá vinstri: Kristján Kristjánsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, konan mín, Elísabet Hjörleifsdóttir, og dóttir okkar, Valgerður Guðmundsdóttir. Myndin var tekin í St. Andrews líklega árið 1988 þegar við Kristján vorum í doktorsnámi þar. Allir á myndinni eru fyrrverandi eða núverandi starfsmenn HA.

Málþing til heiðurs Guðmundi Heiðari haldið 14. október
Á morgun, föstudaginn 14. október fer fram málþing til heiðurs Guðmundi Heiðari í Hátíðarsal háskólans. Málþingið hefst klukkan 13:00, sjá dagskrá hér

 
Til vinstri: Trausti Þorsteinsson og Guðmundur Heiðar þegar Trausti var heiðraður fyrir störf sín við HA. Til hægri: Ritstjórn tímaritsins Scandinavian Journal of Educational Research stödd við Goðafoss eftir ritstjórnarfund sem haldinn var á Akureyri árið 2009. Á myndinni eru taldir frá vinstri: Guðmundur Heiðar Frímannsson, aðstoðarritstjóri, Georg Ahlström aðstoðarritstjóri, Eerkki Kangasniemi aðstoðarritstjóri, Åsmund Strömnes, aðalritstjóri, Öyvind Lund Martinsen, aðstoðarritstjóri, Jan Erik Nordenbo, aðstoðarritstjóri, Graham Jones fulltrúi útgáfunnar Routledge. Guðmundur hefur setið í ritstjórn þessa tímarits síðan 1999.

Þessi umfjöllun er hluti af kynningu á Vísindafólkinu okkar — sjá umfjöllun á Instagram